Innlent

Stjórnarandstaðan stýrir engri þingnefnd

Erla Hlynsdóttir skrifar
Ragnheiður Elín segir að um sameiginlega ákvörðun formanna þingflokka að ræða
Ragnheiður Elín segir að um sameiginlega ákvörðun formanna þingflokka að ræða Mynd úr safni
Stjórnarandstöðuflokkarnir sinna ekki formennsku í neinni þingnefnd, þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því í nýjum lögum um þingsköp sem tóku gildi í gær. Ákvörðun um þetta var tekin sameiginlega af þingflokksformönnum allra flokka.

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, Ragnheiður Elín Árnadóttir, segir að þegar unnið var að útfærslu á lögunum hafi komið upp skoðanamunur milli flokka um það hvaða nefndir kæmu í hlut hvers þingflokks.

„Í nýju þingskapalögunum er skýrt tekið fram og algjörlega ljóst hvernig formennska skiptist á milli þingflokka," segir hún og á þar við fjölda nefnda sem flokkur stýrir út frá þingstyrk.

Hins vegar sé ekki skýrt hvernig ákveða skuli hvaða flokkur fær formennsku í hvaða nefnd.

„Þess vegna þegar við vorum búin að fara yfir þetta mál þá var það ljóst að um þetta næðist ekki samkomulag og því varð út að við ákváðum sameiginlega að fresta þessum breytingum og vísa vinnu við útfærsluna í nýja þingskapanefnd," segir Ragnheiður Elín.

Miklar breytingar felast í nýju þingskapalögunum og segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokks, mikilvægt að þær séu útfærðar að vel athuguði máli. Ragnheiður Elín tekur í sama streng.

„Að mínu mati er þetta farsæl niðurstaða, að við vöndum okkur, útfærum þetta og gerum þetta með þeim hætti að okkur verði sómi að," segir hún.

Ragnheiður Elín bendir í þessu sambandi á þá miklu gagnrýni sem það fékk að setningu Alþingis var flýtt um örfáar klukkustundir. Andrúmsloftið í samfélaginu sé þannig að útfærsla breytinga sé vel ígrunduð.

Uppi hefur verið orðrómur um að þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar hafi hreinlega neitað að taka að sér formennsku í flokkunum. Spurður um þetta segir Gunnar Bragi að svo sé ekki. „Þetta er bara einhver saga sem er verið að reyna að breiða út," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×