Innlent

Eins og Alþingishúsið hefði veðrast í öld

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er forseti Alþingis.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir er forseti Alþingis.
Þrifin á Alþingishúsinu eftir þingsetningu og stefnuræðu í fyrra voru eins og húsið hefði veðrast eitt hundrað ár, segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis. Hún segir í góðu lagi að fólk mótmæli við þessi tækifæri svo framarlega sem það beiti ekki ofbeldi eða skemmi eignir.

Mótmælin í gær við þingsetningu voru nokkuð hörð. Mótmælendur hentu eggjum og öðrum aðskotahlutum í þingmenn og lögreglu, sem varð meðal annars til þess að einn þingmaður féll í götuna. Aftur hefur verið boðað til tunnumótmæla á morgun. „Ég vonast til að þetta verði gert friðsamlega þannig að bæði fólki og verðmætum sé hlíft. Því það vill missa marks ef fólk er með eyðileggingu eða skaðar fólk við að sýna afstöðu sína," segir Ásta Ragnheiður.

Ásta Ragnheiður vekur sérstaklega athygli á því hve viðkvæmt Alþingishúsið er. „Það þolir mjög illa ágang eins og eggjakast eða annað. Þetta er gamalt hús og hreingerningin í fyrra hafði þau áhrif að það var eins og veðrun á húsinu í heila öld. Þetta er það gljúpur steinn sem það er byggt úr, að þegar það er verið að henda eggjahvítu í það að þá er mjög erfitt að þrífa hana af," segir Ásta Ragnheiður. Hún segir að Alþingishúsið sé verðmæti í eigu allrar þjóðarinnar. Það beri því að sýna húsinu virðingu og ganga um það sem slíkt.

Ásta Ragnheiður er stuttorð en skýrorð þegar hún er spurð út í atburði gærdagsins. „Ég vona bara að þeir endurtaki sig ekki," segir Ásta Ragnheiður.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.