Innlent

Hvatti forsætisráðherra til að afnema verðtrygginguna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir vill afnema verðtrygginguna.
Birgitta Jónsdóttir vill afnema verðtrygginguna. Mynd/ anton.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hvatti forsætisráðherra til að láta verða af því að afnema verðtryggingu. Þannig gæti hún brugðist við áskorunum 34 þúsund manna sem hefðu skorað á hana að gera slíkt. Undirskriftasöfnun frá Hagsmunasamtökum heimilanna mætti ekki lenda ofan í skúffu. Þetta sagði hún í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld.

Birgitta sagði að fæstir af þeim þúsundum manna sem hefðu mótmælt við þingsetningu á laugardag hefðu sýnt ofbeldisfulla hegðun. „Fólkið sem kom á Austurvöll við þingsetningu mætti á eigin forsendum sem voru fjölbreyttar," sagði Birgitta. Hún hefði talað við fjölda fólks sem ofbyði forgangsröð og vinnubrögð á Alþingi. Þetta fólk hefði komið með friði og farið með friði.

Loks kallaði Birgitta eftir því að réttlætinu yrði fullnægt vegna bankahrunsins. „Eitt af því sem verður að taka á er sú óbærilega staða að nánast enginn hefur þurft að sæta ábyrgð fyrir því tjóni sem hér hefur orðið," sagði Birgitta. Sumir af þeim væru enn að reka fyrirtæki hér og jafnvel að maka krókinn á kostnað skattborgara.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×