Innlent

Turninn á Höfðatorgi baðaður bleiku ljósi

Turninn á Höfðatorgi er nú baðað bleiku ljósi í tilefni af bleiku slaufunni - árlegu átaki Krabbameinsfélags Ísland. Byggingin sést víða að og mun bleika ljósið skína eins og árvekniviti yfir borginni allan mánuðinn.

Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins segir að sérfræðingar hjá Verkís hafi tekið að sér að hann lýsinguna í turninum og gera þeir það endurgjaldslaust. „Við erum þeim afar þakklát fyrir þá miklu vinnu og listfengi sem þeir hafa lagt í þessa fallegu ljósahönnun,“segir Ragnheiður en kveikt var á lýsingunni á Höfðatorgsturninum í gær. „Þá viljum við einnig þakka Exton fyrir góðan stuðning við bleiku lýsinguna.“

Í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu segir að bæði byggingar og náttúrufyrirbrigði séu nú böðuð bleikum ljósum víða um landið og má þar til dæmis nefna Bleiksárfoss á Eskifirði, Húsavíkurkirkju, Álver Alcoa á Reyðarfirði og höfðustöðvar Landsnets í Reykjavík. Þessar lýsingar eru til marks um stuðning við árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins sem varir allan október.

„Krabbameinsfélagið minnir konur á að gæta heilsu sinnar og vera vakandi fyrir fyrstu einkennum sjúkdóma. Bleika slaufan sem í ár er handunnin í Suður-Afríku er til sölu í tvær vikur og hefur hún skipt sköpum fyrir starf Krabbameinsfélagsins síðustu árin. Félagið beitir sér m.a. fyrir fovörnum og fræðslu og í þessum mánuði býðst fyrirtækjum að fá fyrirlestur um konur og krabbamein endurgjaldslaust. Ráðgjafarþjónusta félagsins veitir margvíslega þjónustu, fræðsla er mikilvægur þáttur starfanna og beitir félagið sig fyrir framförum í meðferð og umönnun krabbameinssjúklinga svo fátt eitt sé nefnt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×