Innlent

Borgarleikhúsið myndskreytir símaskránna

Magnús Geir og Sigríður við undirritun samningsins.
Magnús Geir og Sigríður við undirritun samningsins.
Já og Borgarleikhúsið hafa skrifað undir samkomulag um að Borgarleikhúsið verði samstarfsaðili Símaskrárinnar 2012, sem mun koma út í maí á næsta ári. Í samningnum felst að Borgarleikhúsið mun ásamt Já koma að vinnu við myndskreytingar Símaskrárinnar og auk þess taka þátt í vinnu við efnistök bókarinnar.

„Símaskráin er stærsta einstaka bókaútgáfa hvers árs og sýna kannanir að hún berst inn á meirihluta heimila á landinu og er notuð af stærstum hluta landsmanna. Borgarleikhúsið hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og sannað að Íslendingar eru svo sannarlega einstök leikhúsþjóð. Innan veggja Borgarleikhússins starfa margir af færustu sviðslistamönnum þjóðarinnar. Sýningar Borgarleikhússins hafa einnig vakið verðskuldaða athygli utan landsteinanna, ekki síst sýningarnar sem settar hafa verið upp í samstarfi við verðlaunaleikhópinn Vesturport," segir í tilkynningu.

„Eitt meginmarkmið okkar í Borgarleikhúsinu er að eiga í virku samtali við samfélagið sem leikhúsið er sprottið úr. Símaskráin hefur í áranna rás oft verið spegill þjóðarinnar og því er okkur mikill heiður að vera valin sem samtarfsaðili Símaskrárinnar 2012. Það er líka ánægjulegt að ákveðið hafi verið að beina nú í fyrsta skipti athygli að sviðslistum en leikhúslíf þjóðarinnar er í miklum blóma þessi misserin," segir Magnús Geir Þórðarson, leikhússtjóri Borgarleikhússins í tilkynningu.

„Símaskráin er miðill sem speglar samfélagið á hverjum tíma, hún endurspeglar ekki bara fólkið sem býr í landinu okkar, heldur líka menninguna og stemmninguna. Við viljum að Símaskráin sé lifandi bók, sem er skemmtileg, ásamt því að vera fróðleg. Við hlökkum mjög til samstarfsins með Borgarleikhúsinu og því frábæra fólki sem þar starfar," segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×