Innlent

Kvensjúkdómalæknar vilja annað bóluefni

Mynd tengist frétt ekki beint
Mynd tengist frétt ekki beint
Íslenskir kvensjúkómalæknar telja það bóluefni sem notað er til að bólusetna unglingsstúlkur gegn leghálskrabbameini ekki vera besta kostinn. Betra hefði verið að nota bóluefni sem ver þær einnig gegn kynfæravörtum.

Kristján Oddsson, kvensjúkdómalæknir, segir í Morgunblaðinu í dag að það hafi verið mistök að bjóða út bólusetningu gegn HPV-smiti, sem getur leitt til leghálskrabbameins.

Bóluefnið sem nú er notað kallast Cervarix en einnig er á markaðnum bóluefnið Gardasil, sem veitir líka vörn gegn kynfæravörtum.

Eftir útboð kom í ljós að fyrrnefnda lyfið var um 70 prósentum ódýrara, og það því keypt.

Hulda Hjartardóttir, formaður Félags íslenskra fæðingar- og kvensjúkdómalækna, hefur orðið var við óánægju lækna vegna þessa.

„Ég held að mínir félagsmenn séu sammála um það að Gardasil sé betri kostur," segir Hulda.

Niðurstaðan kom þó ekki endilega á óvart.

„Ég get kannski ekki sagt að við höfum orðið beinlínis hissa því það hefur alltaf verið svolítill verðmunur á þessu en við höfum auðvitað vonast eftir því að Gardasil hefði frekar verið valið," segir hlun.

Hulda vill ekki fullyrða að útboðið hafi verið mistök.

„Ég get náttúrulega ekki alveg tjáð mig um það. Ég geri ráð fyrir því að í útboðsgögnunum hafi þá kannski verið gerður þannig greinarmunur á bóluefnunum að Það hafi haft úrslitaþýðingu að annað bóluefnið stæði hinu framar að þessu leyti," segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×