Innlent

Komin með nóg - ætla að flýja til Noregs

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Fjögurra barna móðir segist ekki lengur ná endum saman og því hafi fjölskyldan ákveðið að flýja land. Hún hefur keypt miða aðra leið til Noregs á sunnudaginn.

„ Það er ekki fjölskylduvænt að búa á Íslandi og við höfum ekki efni á því. Þannig að við ákváðum bara að drífa okkur að prufa eitthvað nýtt," segir Heiða Hrund Matthíasdóttir en sem hafði í nógu að snúast í dag við að pakka niður. Hún flytur af landi brott á sunnudaginn ásamt eiginmanni sínum og fjórum dætrum sem eru á aldrinum tveggja til tólf ára.

„ Það er allt orðið dýrt. Það er dýrt að fara út að versla þó maður versli nánast bara í Bónus. Það hefur bara snarhækkað," segir hún. Hún segir ástandið hér á landi vera erfitt fyrir barnfólk. „ Við getum alls ekki náð endum saman. Samt erum við bæði í vinnu og við vinnum sitt og hvað svo við þurfum ekki að borga fyrir barnapössun. Það skiptir engu máli. Við náum engan vegin endum saman," segir hún.

Heiða hefur undanfarið starfað við heimaþjónustu í Reykjavík en maðurinn hennar er kokkur. Eiginmaðurinn er kominn með vinnu við laxaslátrun í bænum Fjelberg í Vestur Noregi og vonast Heiða til að fá vinnu sem kennari í nágrenninu.

Heiða segir heildartekjur þeirra hjóna nú vera um 350 þúsund á mánuði eftir skatta. Þau borgi 150 þúsund krónur í leigu en fái ekki nema sjö þúsund krónur í húsaleigubætur þó þau séu með fjögur börn. Þau þurfi svo að borga af bíl og tryggingar og mat ofan í börnin. Þannig að launin dugi ekki til.

Til samanburðar hafi hjónin reiknað út að þó aðeins annað þeirra fái vinnu í Noregi þá hafi þau meiri ráðstöfunartekjur. Inni í þeim tekjum eru barnabætur sem eru um tuttugu þúsund krónur á barn á mánuði.

Heiða segir að nú þegar þrjú ár eru frá efnahagshruninu hafi lítið rofað til.

„ Það var ekkert 2007 góðæri hjá okkur. Við höfum ekkert upplifað það. Þetta bara versnaði. Það var þolanlegt en núna er þetta bara að versna meira og meira. Og maður sér ekkert að það sé að fara að breytast neitt," segir Heiða Hrund að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×