Innlent

Stærsta Boeing-flugvél í heimi í Keflavík

Boeing 747-8 á að vera sparneytnari, hljóðlátari og umhverfisvænni en fyrri vélar félagsins.
Boeing 747-8 á að vera sparneytnari, hljóðlátari og umhverfisvænni en fyrri vélar félagsins.
Ný Boeing 747 breiðþota er nú hér á landi við prófanir á Keflavíkurflugvelli. Þotan er stærsta farþegaflugvél sem Boeing hefur smíðað og á að vera sparneytnari, hljóðlátari og umhverfisvænni en fyrri vélar félagsins.

Þotan lenti á Keflavíkurflugvelli í gær og mun vera hér á landi fram yfir helgi við hliðarvindsprófanir á Keflavíkurflugvelli.

Þotan er endurgerð af fyrri 747 þotum Boeing sem þjónað hafa hundruðum flugfélaga í 40 ár. Hún er tæpum sex metrum lengri en eldri gerðir og mun geta tekið allt að 467 farþega í sæti. Boeing nýtir sér tækni sem þróuð var fyrir nýju 787 Dreamliner þoturnar við smíði vélarinnar og mun 747-8 því vera hljóðlátari, umhverfisvænni og sparneytnari en samskonar breiðþotur frá samkeppnisaðilum samkvæmt upplýsingum frá Boeing. Til dæmis gerir Boeing ráð fyrir að nýja 747 verði um 10 prósent sparneytnari á hvert sæti en sambærileg vél Airbus A380.

Þá bíður vélin upp á 26 prósent meira rými til fragt flutninga en eldri gerðir. Tæplega 80 fragtvélar hafa verið pantaðar frá Boeing og 36 farþegavélar. Afhending vélarinnar hefur frestast fjölmörgum sinnum en áætlað er nú að afhenda fyrstu eintök fragtvéla á næstu mánuðum og farþegavéla í byrjun næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×