Erlent

Abbas sækir um aðild fyrir Palestínu í dag

Mahmoud Abbas, forseti Palestínu.
Mahmoud Abbas, forseti Palestínu.
Forseti Palestínumanna mun í dag sækja um fulla aðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum. Mahmoud Abbas ætlar að sækja um aðildina með því að senda formlegt bréf til Ban Ki Moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna stuttu áður en hann heldur ræðu á Allsherjarþinginu sem nú stendur yfir.

Benjamín Netanyahu forsætisráðherra Ísraels fer í pontu stuttu á eftir Abbas og er fastlega búist við því að hann fordæmi ákvörðun Palestínumanna. Bandaríkjamenn hafa tekið undir með Ísraelum í málinu og segja að eina leiðin til lausnar sér með beinni aðkomu Ísraelsmanna.

Í gær sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti Abbas að hann myndi beita neitunarvaldi í málinu þegar það kæmi fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna en Abbas ætlar þrátt fyrir það að sækja um aðildina.

Nokkar vikur munu líða áður en Öryggisráðið tekur málið fyrir og raunar er ekki víst að Bandaríkjamenn þurfi að beita neitunarvaldinu. Níu af fimmtán ríkjum sem sæti eiga í ráðinu þurfa að samþykkja beiðni Palestínumanna til þess að hún fái brautargengi og undanfarna daga hafa Bandaríkjamenn og Ísraelar þrýst mjög á önnur ríki að hafna beiðninni eða sitja hjá.

Hvernig sem fer er ljóst að aðgerðir Palestínumanna hafa komið ástandinu í Ísrael og Palestínu í kastljósið á ný en friðarviðræður á milli ríkjanna runnu út í sandinn fyrir ári síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×