Erlent

Strauss-Kahn hittir ásakanda sinn

Strauss-Kahn yfirgefur lögreglustöðina í dag.
Strauss-Kahn yfirgefur lögreglustöðina í dag. mynd/AFP
Dominique Strauss-Kahn var glaðbeittur þegar hann yfirgaf lögreglustöð í miðborg Parísar í dag. Á fundi í lögreglustöðinni hitti Strauss-Kahn ásakanda sinn, Tristane Banon, sem segir hann hafa nauðgað sér árið 2003. Fundir eins og þessir eru algengir í Frakklandi en þar hittast báðir aðilar málsins fyrir dómara og ákveðið er hvernig áskönunum og réttarhaldi verði háttað. Banon sakar Strauss-Kahn um að hafa reynt að nauðga sér í lúxus-svítu fyrir átta árum. Hún segir hann hafa rifið af sér fötin og að hún hafi neyðst til að berja hann frá sér. Strauss-Kahn greindi frá því í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru að hann teldi Banon vera haldna draumórum. Lögmaður Strauss-Kahn segir báða aðila hafa haldið sig við sína sögu. Strauss-Kahn er nýkominn aftur til heimalandssins eftir að hafa staðið í svipuðum málaferlum í New York. Þar var Strauss-Kahn ásakaður um að hafa nauðgað Nafissatou Diallo. Strauss-Kahn segist ekki ætla að bjóða sig fram til forseta í Frakklandi. Hann hefur enn sterkt pólitísk bakland og var talinn álitlegur frambjóðandi áður en hneyksli síðustu mánuða dundu á honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×