Innlent

Ölvun og lyfjaneysla oftast ástæður endurgreiðslu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árekstur.
Árekstur. Mynd/ Getty.
Í 77% þeirra tilfella sem ökumenn voru krafðir um endurgreiðslu frá tryggingafélögum vegna umferðartjóna í fyrra var ökumaður ölvaður eða undir áhrifum lyfja.

Mælt er fyrir um það í umferðarlögum að vátryggingafélag, sem greitt hefur bætur vegna tjóns af völdum ökutækja, eignist endurkröfurétt á hendur þeim, sem tjóni olli af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.

Sérstök nefnd er starfandi á vegum viðskiptaráðherra og hefur það hlutverk að úrskurða um það hvort tryggingafélag eigi endurkröfurétt á tjónvald eða ekki. Á síðasta ári bárust nefndinni samtals 157 ný mál til úrskurðar. Af þessum málum samþykkti nefndin endurkröfu að öllu leyti eða að hluta í 144 málum. Á árinu 2009 var heildarfjöldi mála á hinn bóginn 271, og samþykktar endurkröfur að öllu eða einhverju leyti voru 253.

Ástæður endurkröfu voru oftast ölvun tjónvalds, þ.e. í 82 tilvikum, eða í 57% endurkrafnanna. Lyfjaáhrif var næst algengasta ástæða endurkröfu. Slík tilvik voru 29, eða um 20% tilvika. Um 77% endurkrafnanna voru þannig vegna ölvunar ökumanna eða lyfjaáhrifa þeirra.

Í fjárhæðum talið nema þessar endurkröfur samtals tæplega 59 milljónum króna, og er þá einnig tekið tillit til viðbótarendurkrafna í eldri málum. Hæsta einstaka endurkrafan nam rúmlega 4.1 milljónum króna, og tvær þær næst hæstu námu 3.5 milljónum króna. Alls voru 36 endurkröfur að fjárhæð 500 þúsund krónur eða meira í fyrra..




Fleiri fréttir

Sjá meira


×