Innlent

"Ég er ekki að hnýta í forsetaræfilinn“

Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason
Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, telur að forseti Íslands þurfi að svara því hvernig hann hyggst bregðast við gagnrýni ráðherra í sinn garð. Björn spurði á Alþingi í morgun hvort forseti ætli að rjúfa þing og boða til kosninga.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti íslands, gagnrýndi ríkisstjórnina og evrópuþjóðir harðlega í viðtölum við innlenda og erlenda fjölmiðla fyrr í þessum mánuði.

Ummæli forseta hafa vakið hörð viðbrögð og hafa ráðherra ríkisstjórnarinnar meðal annars talið að forsetinn væri með þessu að ráðast beint á stjórnvöld.

Í viðtali á Bylgjunni á mánudag sagðist Ólafur Ragnar ekki ætla sitja undir því sem hann kallaði aðför fjármálaráðherra að sér og forsetaembættinu.

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, fjallar um málið á heimasíðu sinni og spyr hvort forseti ætli að krefjast afsagnar fjármálaráðherra eða jafnvel rjúfa þing og boða til kosninga líkt og heimilt er í stjórnarskránni.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, tók málið upp á Alþingi í morgun og spurði Björn hvort ríkisstjórni íhugi að leggja fram vantrauststillögu á forseta.

Björn Valur sagði að forsetinn þyrfti að svara þessum spurningum sjálfur en að öðru leyti væri hann ekki að hnýta í forsetaræfilinn eins og hann orðaði það sjálfur.

„Ég er ekki að hnýta í forsetaræfilinn með neinum hætti eða beina orðum mínum til hans," sagði Björn Valur og benti á að þingmenn ættu að velta því fyrir sér ef forsetinn gerir athugasemdir við störf þeirra á þinginu.

Björn Valur sagðist ekki vita til þess að ríkisstjórnin ætli sér að lýsa yfir vantrausti á forseta.

„Mér finnst það skipta máli ef forsetinn segist ekki ætla að sitja undir ummælum kjörinna fulltrúa á þinginu, hvort sem það eru ráðherrar eða þingmenn," sagði Björn valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×