Erlent

Facebook-tvíburarnir leika í auglýsingu

Cameron og Tyler Winklevoss, tvíburabræðurnir sem telja sig eiga hugmynda að baki Facebook, eru nú farnir að birtast á sjónvarpsskjám Bandríkjamanna. Þeir leika í auglýsingu fyrir fyrirtæki sem selur hnetur.

Í auglýsingunni opnar annar bróðirinn pistasíu með einni hendi og hinn segir: „Þetta er góð hugmynd". Þá svarar sá sem opnaði hnetuna: „Heldurðu að einhver steli henni?" Báðir snúa sér svo að myndavélinni og segja: „Hver myndi gera það?"

Auglýsingin er heldur skondin sérstaklega ef litið er til þess að þeir hafa staðið í málaferlum við Mark Zuckerberg, eiganda Facebook. Þeir telja sig hafa komið með hugmyndina að samskiptasíðunni Facebook. Fyrir tveimur árum náðust svo sættir í málinu sem fólust í því að tvíburarnir fengu greiddar 20 milljónir bandaríkja dala, um 2,2 milljarða króna, í reiðufé og 45 milljónir bandaríkjadala, rúmlega 5 milljarða króna, í hlutabréfum í Facebook.

Það má geta þess að 45 milljóna bandaríkjadala hlutur þeirra bræðra í Facebook er nú talinn vera meira en 100 milljón bandaríkjadollara virði, rúmlega 11,5 milljarða íslenskra króna.

Hægt er að horfa á myndbandið hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×