Innlent

Heiður að fá Annan til Íslands

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kofi Annan kemur til Íslands í boði Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands.
Kofi Annan kemur til Íslands í boði Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands. Samsett mynd/ Arnór.
„Ég tel það vera mikil og góð tíðindi og mikill heiður, ekki bara fyrir Háskóla Íslands heldur íslenska þjóð að einn af fremstu leiðtogum veraldar á síðustu áratugum skuli vilja heiðra Háskola Íslands á þessum tímamótum," segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við Vísi. Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, mun koma hingað til lands í byrjun október og halda fyrirlestur í Háskóla Íslands þann 7. október næstkomandi í tilefni af hundrað ára afmæli skólans.

„Ásamt Nelson Mandela nýtur hann einna mestrar virðingar í allri veröldinni. Og í ljosi erfiðleika okkar Íslendinga á síðustu þremur  árum og alþjóðlegrar stöðu eru það ánægjuleg tíðindi að hann skyldi taka boði okkar að koma hingað á þessum tímamótum," segir Ólafur Ragnar. 

Aðspurður segir Ólafur Ragnar að það sé mjög sjaldgæft að menn sem hafi gegnt embætti aðalritara Sameinuðu þjóðanna komi til Íslands. „Mig minnir að U Thant hafi komið hér fyrir hálfri öld eða svo. Síðan kom Kofi hingað 1997, að mig minnir, á ferð sinni um Norðurlönd,“ segir Ólafur Ragnar. Hann þekki engin önnur tilvik.

Auk þess að halda fyrirlestur í Háskóla Íslands mun Ólafur Ragnar Grímsson kynna fyrir Kofi Annan íslenkst hugvit varðandi jarðhitanýtingu og loftslagsrannsóknir með tilliti til landbúnaðar og fæðuframleiðslu sem gæti nýst í Afríku. „Því hann hefur ákveðið eftir að hann hætti að beita sér sérstaklega fyrir þróun mála í Afríku,“ segir Ólafur Ragnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×