Innlent

Smyrill í húsagarði í Hafnarfirði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Nokkra Hafnfirðinga rak í rogastans þegar þeir litu inn í húsagarð í Stuðlaberginu um fimmleytið í gær. Þar sat smyrill í mestu makindum og gæddi sér á skógarþresti.

Þetta virtist vera eins og hvert annað hausteftirmiðdegi þegar Helgi Ásgeir Harðarson kom heim úr vinnunni um fimmleytið í gær. En þegar hann leit út um stofugluggann sá hann hvar fuglinn sat og tók nokkuð hraustlega til matar síns.

Það var ekki fyrr en Helgi opnaði dyrnar til að senda hundinn sinn á smyrilinn að hann flaug á brott. Það hefur sennilegast verið skynsamlegt. Enda óvíst að hægt sé að leggja stærðar hund að velli þótt lítill skógarþröstur verði undan að láta. En Bíbí var ekki saddur þegar hann fór. „Hann tók alla vega með sér ránsfenginn eða veiðibráðina í þessu tilfelli," segir Helgi.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að smyrlar séu flestir um þetta leyti að búa sig undir farflug til Vestur-Evrópu og þurfi að fita sig fyrir ferðina. Þeir séu mjög harðvítugurr og elti oft smáfugla heim að húsum og éti þá. Þetta hafi farið fyrir brjóstið á mörgum áður fyrr og geri það ef til vill enn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×