Erlent

"Þetta er barátta fyrir efnahagslegri og pólitískri framtíð Evrópu"

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sagði í dag að svarið við vanda evrunnar væri aukinn samruni ríkjanna í sambandinu. Þá sagði að hann að framkvæmdastjórnin myndi senn kynna möguleikann á sameiginlegum evruskuldabréfum.

Raunverulega ógnir steðja að framtíð evrusamstarfsins vegna skuldavanda ríkjanna á svæðinu. Vaxandi áhyggjur eru um að Grikkland muni virða skuldir sínar að vettugi með greiðslufalli og hugsanlega yfirgefa evrusvæðið. Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði þegar hann ávarpaði Evrópuþingið í Strassborg í dag að lausn á vanda evrusvæðisins fælist ekki í því að tvístra því upp.

„Við stöndum frammi fyrir alvarlegasta viðfangsefni heillar kynslóðar. Þetta er barátta fyrir störfum og velmegun fjölskyldna í öllum aðildarríkjunum. Þetta er barátta fyrir efnahagslegri og pólitískri framtíð Evrópu. (...) Niðurstaða mín er alveg skýr: Rétta leiðin til að stöðva þessa neikvæðu þróun og styrkja evruna er að auka samþættingu innan evrusvæðisins á grundvelli sambandsaðferðarinnar. Þetta er rétta leiðin," sagði Barroso.

Fyrr í sumar var mikil umræða um útgáfu sameiginlegra skuldabréfa fyrir ríkin á evrusvæðinu, svokallaðra evruskuldabréfa, en mjög er deilt um ágæti þeirra. Hingað til hafa leiðtogar öflugustu ríkjanna á svæðinu eins og Angela Merkel og Nicolas Sarkozy ekki viljað ganga svo langt að segja að slíkt sé á dagskránni, en Barroso staðfesti í dag að framkvæmdastjórnin myndi innan skamms kynna möguleika á slíku.

„Í dag vil ég staðfesta að framkvæmdastjórnin mun fljótlega kynna möguleika á útgáfu evrubréfa. Þetta færir okkur ekki tafarlausar lausnir á öllum vandamálum okkar en þetta verður hluti alhliða nálgunar til að auka efnhagslega og pólitíska samþættingu," sagði Barroso þegar hann ávarpaði Evrópuþingið í Strassborg í dag. thorbjorn@stod2.is


Tengdar fréttir

Obama: Lokaorrusta evrunnar í vændum

Barack Obama, bandaríkjaforseti, hafði í kvöld orð á því að evrusvæðið þyrfti á styrkari leiðtogum að halda og varaði við því að lokaorrusta evrunnar væri í aðsigi. Hann bað Frakka og Þjóðverja að taka ábyrgð, þar sem aðstæðurnar í Grikklandi ógnuðu Ítalíu og fleiri löndum á svæðinu. Þetta kemur fram á vefmiðli Daily mail.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×