Erlent

Lögsækir skyndibitastað fyrir of lítil sæti

Viðskiptavinur bandarísku skyndibitakeðjunnar White Castle lögsækir nú skyndibitastaðinn fyrir að vera ekki með nógu stór sæti á sölustöðum sínum.

Martin Kessman er 64 ára og vegur rúm 130 kílógrömm. Hann keypti sér hamborgara í apríl 2009. Þegar hann ætlaði að setjast niður sá hann að sætin voru boltuð við gólfið og hvergi var nóg pláss fyrir hann til að borða matinn sinn. Þegar hann reyndi að troða sér í eitt sætið rak hann hnéð harkalega í borðfót.

„Ég er ekkert tröllaukinn," segir Martin. „En þetta skapar vandræði, t.d. fyrir óléttar konur og fatlað fólk. Svo ég sendi þeim kvörtun. Eftir það liðu tvö og hálft ár og ekkert gerðist."

Í kjölfarið lögsótti Martin fyrirtækið. Hann vill það sé skyldað til að hafa stærri sæti á sölustöðum sínum. Einnig fer hann fram á skaðabætur fyrir hnémeiðslin.

Talsmaður White Castle segir að Martin hefði getað beðið um venjulegan stól.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×