Innlent

Heimilum haldið í skuldaspennitreyju

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson hefur óskað eftir fundi í viðskiptanefnd.
Guðlaugur Þór Þórðarson hefur óskað eftir fundi í viðskiptanefnd. Mynd/ Vilhelm.
Heimilum og litlum fyrirtækjum er haldið í skuldaspennitreyju á meðan bankarnir sýna methagnað vegna afslátta af skuldum, segir Guðlaugur Þór Þórðarson. Guðlaugur Þór, sem er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur farið fram á fund í viðskiptanefnd til að ræða árshlutauppgjör bankanna.

Þar vekur hann athygli á því að hagnaður þriggja stóru bankanna hafi numið samtals tæplega 42,7 milljörðum króna á fyrri hluta ársins. Hagnaður Landsbankans var 24,4 milljarðar króna, hagnaður Arion banka nam 10,2 milljörðum króna og hagnaður Íslandsbanka tæplega 8,1 milljarði króna. Hagnaðurinn hafi numið tæpum 26 milljörðum á sama tímabili í fyrra. „Mér sýnist hagnaður bankanna sé fyrst og fremst sá að menn séu að reikna upp eignir," segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Samkvæmt svari fjármálaráðherra við fyrirspurn sinni hafi bankarnir fengið skuldir Landsbankans með 50% afslætti í tilfelli fyrirtækja og 33% í tilfelli einstaklinga. Það sé óhætt að heimfæra þessa niðurstöðu yfir á hina bankana. „Inni í því eru ekki stóru fyrirtækin flest hver. Þau voru eftir í gömlu bönkunum," segir Guðlaugur Þór.

Ársreikningar og árshlutauppgjör sýni það svo að menn hafi uppreiknað þessa afslætti. „Menn eru að meta það að það þurfi ekki að veita fyrirtækjunum 50% afslætti heldur minna en það," segir Guðlaugur Þór. „Áhyggjur mínar eru þær að við séum að festa fólk og fyrirtæki í skuldaspennitreyju og við verðum að því næstu tíu, tuttugu til þrjátíu árin að greiða vexti," segir Guðlaugur Þór og bendir á að þetta eigi í það minnsta við um stóran hluta þjóðarinnar. „Og á meðan fólk er að greiða svo háa vexti að þá er þetta efnahagslíf ekkert að fara af stað," segir Guðlaugur Þór. Allir tapi á því ef efnahagslífið fari ekki af stað.

Guðlaugur Þór segir að Áflheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndarinnar, hafi tekið vel í fundarbeiðni sína. Fundartími hafi þó ekki verið ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×