Innlent

Skyndiskoðun á vélhjólum - eitt hjól sent í skoðun

Vélhjólamenn. Myndin er úr safni.
Vélhjólamenn. Myndin er úr safni.
Umferðarstofa, í samstarfi við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og skoðunarstöðvar, stendur nú fyrir skyndiskoðunum á bifhjólum.

Þær fara þannig fram að lögregla stöðvar bifhjól í umferð og skoðunarmaður skoðunarfyrirtækis skoðar búnað þeirra, að viðstöddum eftirlitsmanni frá Umferðarstofu. Nokkur ár eru síðan skyndiskoðanir voru síðast framkvæmdar og því var talið kjörið að fara af stað með þær að nýju en tilgangurinn er að auka umferðaröryggi bifhjólamanna, sem og að kanna aðbúnað bifhjóla í umferð.

Skyndiskoðun af þessu tagi fór fram nú í dag á milli kl. 15-17 við Sólfarið við Sæbraut. Þetta er í annað sinn í mánuðinum sem skyndiskoðun fer fram og eru fleiri slíkar skoðanir ráðgerðar á næstunni. Sex bifhjól voru stöðvuð; fjögur þung bifhjól og tvö létt bifhjól. Eitt þungu vélhjólanna var boðað í skoðun og var það vegna rangrar staðsetningar skráningarmerkis og vanvirks hemlaljóss.

Tæplega 7.000 bifhjól eru skráð í umferð samkvæmt ökutækjaskrá Umferðarstofu, og er mikill meirihluti þeirra staðsettur á höfuðborgarsvæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×