Innlent

Undrast ekki aðgerðir Obama

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Þór Sigurðsson segist ekki undrast aðgerðir Obama.
Árni Þór Sigurðsson segist ekki undrast aðgerðir Obama. Mynd/ GVA.
Þær þvingunaraðgerðir gegn Íslendingum sem Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um í gær ættu ekki að koma mönnum á óvart, segir Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Hann kvaðst ekki hafa séð tilkynninguna frá Obama en vissi af því í gær að hún væri komin.

Hann kvaðst ekki hafa séð tilkynninguna frá Obama en vissi af því í gær að hún væri komin. „Þetta er fyrst og fremst á pólitíska sviðinu, ekki konkret viðskiptaþvinganir eða neitt svoleiðs. Þannig að ég held að þetta sé ekkert sem komi mönnum á óvart," segir Árni Þór.

Hann segir að á fyrri stigum málsins hafi menn skynjað að það væri þrýstingur frá Bandaríkjamönnum vegna hvalveiðanna og það verði framhald á því. „Hvort það hefur svo áhrif á okkar samstarf á hinum ýmsum sviðum sem við eigum samstarf við þá á, til dæmis um málefni Norðurslóða er ekki alveg gott að segja," segir Árni. Það væri mjög miður ef svo færi.

Aðspurður hvort þessar þvingunaraðgerðir Obama beri vott um hræsni, segist Árni Þór ekki vilja tjá sig um það. „Við höfum auðvitað af okkar hálfu bent á það að þeir eru sjálfir að stunda hvalveiðar og óska eftir stuðningi meðal annars okkar á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins við það en við þekkjum þessi viðhorf sem eru til þessara hvalveiða okkar í viðskiptaskyni," segir Árni Þór.

Árni segist lengi hafa verið þeirrar skoðunar að hvalveiðar Íslendinga væru óskynsamlegar út frá heildarhagsmunum. „Og ég held að við eigum að taka umræðu um það hverju þær eru að skila. óháð því sem kemur frá Bandaríkjaforseta núna," segir Árni Þór.

Sé smellt á hlekkinn hér að neðan má sjá tilkynninguna frá Obama.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×