Innlent

Sextíu manns í vinnu við skriðjöklagöngur

Gönguferðir á skriðjökla með ferðmenn hafa stóraukist á síðustu árum. Kallað er eftir því að reglur verði settar til að tryggja öryggi.

Um sextíu manns höfðu atvinnu af því í sumar að ganga með ferðamenn um íslenska skriðjökla og um fimmtán manns hafa orðið lifibrauð af skriðjöklum árið um kring, en þetta einn helsti vaxtarsprotinn í íslenskri ferðaþjónustu.

Skriðjöklarnir eru meðal þess sem ferðamönnum þykir einna mest spennandi að sjá á Íslandi.

Á undanförnum árum hafa sprottið upp nokkur fyrirtæki sem gera út á skriðjöklana en tvö þeirra eru með aðstöðu við þjóðgarðsmiðstöðina í Skaftafelli, þar á meðal Íslenskir fjallaleiðsögumenn sem ruddu brautina, en þeir hófu rekstur árið 1994, að sögn Ívars Freys Finnbogasonar yfirleiðsögumanns. Umfangið hefur margfaldast síðan og í ár er áætlað að um 30 þúsund manns kaupi sér gönguferð á íslenskan skriðjökul sem er talsvert frábrugðin vélsleðaferð á jökul. Ferðamennirnir fá ísbrodda og ísaxir áður en lagt er á jökulinn í fylgd leiðsögumanna.

Margir ímynda sér að það sé bara á færi fræknustu fjallagöngugarpa að ganga á skriðjökull en boðið er upp á ferðir við flestra hæfi, jafnvel fyrir börn og gamalmenni. Skilyrði er þó að fólk geti gengið og þá er hægt að sýna því undur skriðjökla, eins og íshella og svelgi þar sem vatnið fossar oní jökulinn.

Þetta er orðin heilsársatvinnugrein en eftir því sem ferðamönnunum fjölgar óttast menn að slysahætta geti aukist og kallar Ívar Freyr eftir því í viðtali á Stöð 2 að reglur verði settar, bæði til að tryggja gæði og öryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×