Innlent

Össur mun styðja umsókn Palestínu

Össur Skarphéðinsson mun fyrir Íslands hönd styðja umsókn Palestínu um viðurkenningu um að landið sé sjálfstætt ríki. Þessu lýsti Össur yfir í ferð sinni til Gazasvæðisins síðastliðið sumar og aðstoðarmaður hans, Kristján Guy Burgess, staðfesti við fréttastofu.

Palestínumenn munu á föstudaginn komandi óska eftir fullri aðild að Sameinuðu Þjóðunum og þar með viðurkenningu á því að landið sé sjálfstætt ríki. Þá ósk munu þeir setja fram fyrir Öryggisráð Sameinuðu Þjóðanna sem er skipað 15 þjóðum. Bandaríkin hafa hins vegar lýst því yfir að þeir muni beita neitunarvaldi í ráðinu og þar með fella tillöguna upp á sitt einsdæmi. Bandaríkin eru eitt fimm ríkja sem hafa neitunarvald í ráðinu.

Hafni Öryggisráðið tillögu Palestínu getur landið sett fram kröfu fyrir Allsherjarþingi Sameinuðu Þjóðanna um að verða viðurkennt sem „non-member state“. Það er svipuð staða og Vatikanið hefur nú, og felur í sér að landið geti átt aðild að alþjóðlegum samningum og alþjóðlegum stofnunum.

Þá kemur til kasta Íslands í atkvæðagreiðslunni, en Össur hefur lýst því yfir að hann muni styðja tillögur Palestínu.

Össur hefur rætt málið nokkuð oft til samráðs við utanríkismálanefnd Alþingis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×