Innlent

Hafró segir hvalveiðarnar sjálfbærar

Mynd úr safni
Mynd úr safni
Í ástandsskýrslum Hafrannsóknarstofnunar kemur fram að þeir hvalastofnar sem Íslendingar veiða þola verulegar veiðar. Og eru veiðarnar vel innan við sjálfbær mörk. Ákvörðun Bandaríkjamanna að beita íslenska ríkið diplómatískum þvingunum vegna hvalveiða virðist ekki styðjast við vísindaleg rök.

Skipulegar hvalarannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunarinnar hófust árið 1979 með ráðningu sérfræðings á þessu sviði, en þá höfðu breskir sérfræðingar stundað rannsóknir á hvölum hér við land í um áratug í samvinnu við stofnunina.

Samkvæmt niðurstöðum Hafrannsóknarstofnunar eru hrefnuveiðar hér á landi vel innan marka sjálfbærni. Samkvæmt úttekt vísindanefndar NAMMCO, Norður-Atlantshafs sjávarspendýraráðsins, er stofnstærð hrenfu hér við land nú nálægt því sem talið er að hún hafi verið áður en veiðar hófust.

Þær hvalveiðar sem stundaðar voru í atvinnuskyni á síðustu öld, áður en þær lögðust af árið 1985, virðast því hafa haft hverfandi áhrif á stofninn. Samkvæmt öllum þeim forsendum sem vísindanefndin taldi raunhæfar eru hverfandi líkur á að árlegar veiðar 200 hrefnum í tuttugu ár myndu færa stofninn niður fyrir 80 prósent af upphaflegri stærð. Þá komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ólíklegt væri að árlegar veiðar á 400 hrefnum myndu færa stofninn niður fyrir 70 prósent á sama tímabili.

Veiðarnar sem Íslendingar stundan á hrefnu virðast því vera vel innan marka sjálfbærni. Þá er fjöldi langreyða í Norður-Atlantshafi vaxandi og að nálgast sögulegt hámark og því ekki í útrýmingarhættu.

Sú ákvörðun Bandaríkjaforseta að beita Ísland diplómatískum þvingunum vegna hvalveiða virðist því ekki styðjast við vísindaleg rök, líkt og bæði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og utanríkisráðherra lýstu yfir fyrir helgi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×