Innlent

Dópaðir slást við slökkviliðið

Slökkvistarf er mikil hasarvinna.
Slökkvistarf er mikil hasarvinna. Mynd/365
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út að íbúð við Njálsgötu vegna eldsvoða um hádegisbil í dag. Einn slökkviliðsbíll var sendur á staðinn.

Þegar reykkafarar slökkviliðsins komu lentu þeir í átökum við íbúa hússins sem vildu varna slökkviliðinu inngöngu. Það þrátt fyrir að eldhús þeirra léki í ljósum logum. Reykkafararnir voru ekki lengi að yfirbuga íbúa hússins, þröngva sér inn og slökkva eldinn, sem hafði kviknað út frá eldhúshellu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk hringingu vegna málsins þegar átökin stóðu. Þegar lögreglan mætti á staðinn hafði slökkviliðið ráðið niðurlögum eldsins. Í ljós kom að íbúar hússins voru undir áhrifum fíkniefna. Í íbúðinn fann lögregla margar tegundir efna, svo sem kannabis og hvít efni. „Bara alla flóruna," segir lögreglumaður á vakt.

Íbúarnir sem voru tveir voru fluttir á slysavarðstofu með grun um reykeitrun. Eftir skoðun kom í ljós að ekki var um alvarlega reykeitrun að ræða og þeir verða útskrifaðir af Slysadeild Landspítalans um fjögur leytið.

Þeir munu sæta ákæru vegna brota gegn fíkniefnalöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×