Erlent

Berlusconi montar sig af kynlífi

mynd úr safni
Glaumgosinn Silvio Berlusconi varð fyrir enn einu áfallinu í dag þegar fjölmiðlar á Ítalíu birtu afrit af símtölum hans þar sem hann montar sig af því að 11 stúlkur bíði í röð fyrir utan dyrnar hjá honum eftir því að fá að hafa við hann kynmök.

Í símtalinu sem er frá árinu 2009 segist hann aðeins hafa „gert" 8 þeirra af því að maður „geti ekki gert allt".

Í öðru símtali lýsir hann sjálfum sér sem „forsætisráðherra í frítíma sínum".

Símtölin átti Berlusconi við viðskiptamanninn Giampolo Tarantini, en sá hefur verið ákærður fyrir að sjá Berlusconi fyrir vændiskonum. Forsætisráðherran sjálfur var ekki ákærður en hann verður yfirheyrður sem vitni í málinu.

8 manns, þeirra á meðal Tarantini, voru ákærðir síðastliðinn fimmtudag fyrir að sjá Berlusconi fyrir vændiskonum. Í gær, föstudag, birtu fjölmiðlar á Ítalíu myndir af einhverjum kvennanna sem um ræðir. Í dag birtust svo afrit af símtölum forsætisráðherrans uppá þúsundir blaðsíðna.

Þetta mál eykur enn á gagnrýni á forsætisráðherrann, sem hefur m.a. legið undir ámæli vegna stjórnunar sinnar á fjármálum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×