Erlent

Sjö látnir eftir skjálftann í Nepal

Að minnsta kosti sjö eru látnir eftir að öflugur jarðskjálfti reið yfir Nepal og Norðurhéröð Indlands eftir hádegi í dag. Björgunarsveitir leita nú þeirra sem talið er að séu fastir í húsarústum í höfuðborg landsins.

Jarðskjálftinn mældist sex komma átta á richter en upptök hans voru um það bil tvö hundruð og sjötíu kílómetrum vestur af höfuðborg landsins, Katmandú.

Sjö eru látnir, þar á meðal þrír sem voru inni í breska sendiráðinu í Nepal en það hrundi í skjálftanum. Þá lést maður ásamt átta ára gömlu barni sínu sem féllu af mótorhjóli í skjálftanum. Þá eru alla vega tveir látnir í norður héröðum Indlands en skjálftinn var nokkuð öflugur þar. Skjálftinn fannst jafnframt í Bangladesh og Bútan.

Símalínur slitnuðu og rafmagn fór af borginni Gangtok en þar búa fimmtíu þúsund manns. Fjöldi bygginga hrundi í skjáltanum og björgunarsveitarmenn leita nú þeirra sem talið er að fastir séu í rústunum. Óttast er að tala látinna kunni að hækka.

Unnið er að því að flytja björgunarsveitarmenn, lögreglumenn og herlið á svæðið en forsætisráðherra Indlands tók þá ákvörðun á neyðarfundi sem haldinn var í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×