Erlent

Ísrael: Friði verður aðeins náð með samningum

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir að áform Palestínumanna um að fá viðurkenningu á ríki sínu fyrir Sameinuðu þjóðunum muni ekki ganga eftir. Bæði Bandaríkin og Ísrael leggja á það áherslu að Palestínumenn dragi umsókn sína um aðild að Sameinuðu þjóðunum til baka.

Fastlega er búist við að umsókn Palestínumanna um aðild að Sameinuðu þjóðunum verði lögð fram á þriðjudag en þremur dögum síðar ávarpar Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Eftir að umsóknin hefur formlega verið lögð fram tekur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hana til umfjöllunar en fimmtán ríki eiga sæti í ráðinu. Bandaríkin, eitt þeirra ríkja sem fara með neitunarvald í ráðinu, hafa sterklega gefið í skyn að þessu valdi verði beitt komi umsóknin þar til umfjöllunar.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði eftir ríkisstjórnarfund í Jerúsalem í dag að hann vonaðist til að Palestínumenn myndu draga umsóknina til baka og sagði litlar líkur á að áform þeirra myndu ná fram að ganga.

„Þrátt fyrir tilraunir þeirra til að sniðganga samningaviðræður með umsókn sinni til Sameinuðu Þjóðanna mun friður aðeins takast fyrir samningaviðræður. Tilraun Palestínumanna til að verða meðlimur Sameinuðu Þjóðanna mun mistakast," segir Netanyahu.

„Við erum reiðubúnir að setjast að samningaborðinu og reyna að semja um frið við Palestínu ef þeir eru það líka. Ég held að um síðir, þegar reykskýið sest, eftir allt sem nú gengur á í Sameinuðu þjóðunum, að lokum, að Palestínumenn muni átta sig."

Fastlega er búist við að umsókn Palestínumanna verði aðal hitamálið á allsherjarþinginu sem hefst á morgun. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur sagt að Íslendingar muni styðja viðurkenningu á ríki Palestínu verði tillaga þess efnis lögð fram á allsherjarþinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×