Innlent

Fórnarlömbin elt uppi og dregin til hliðar

Að minnsta kosti tvö af þeim meintu nauðgunarmálum sem komu upp í Vestmannaeyjum um helgina áttu sér stað á almannafæri. Eyrún Jónsdóttir, verkefnisstjóri á Neyðarmóttöku Landspítalans fyrir þolendur kynferðisofbeldis, segir fórnarlömbin hafa verið elt uppi og dregin til hliðar.

Eyrún segir mál sem þessi ekki algeng en þau hafi þó komið upp í gegnum árin. Í tilfelli Vestmannaeyja megi sem dæmi taka árásir sem eigi sér stað í brekkunni sjálfri eða til hliðar við hana, en stór hluti hátíðarhaldanna í Eyjum fer fram þar. „Núna þá gerast tvö atvik þar sem tvær manneskjur eru eltar uppi og dregnar til hliðar, eins og í öðru málinu inn á salerni."

Aðspurð hvernig svona mál geti farið framhjá almenningi svarar Eyrún: „Ég held að fólk sé einfaldlega að skemmta sér og í sínum heimi. Það er ekkert að taka almennt eftir því hvað er að gerast í kringum það. Það heldur jafnvel að þetta sé bara eitthvað á milli þessara aðila og dettur ekki í hug að skipta sér almennt af því."

Hún segir að þolendur spyrji sig afhverju enginn hafi skipt sér af, þar sem sýnilega hafi eitthvað verið að gerast sem ekki gæti talist alveg eðlilegt. Eyrún brýnir því fyrir fólki að vera vakandi og láti sig það varða þegar þau koma auga á fólk sem sé illa til reika og í slíku ástandi að það gæti ekki bjargað sér úr slæmum aðstæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×