Innlent

Krefjast þess að strokuþrællinn fái að dvelja á Íslandi

Mouhammde Lo strauk af Fit hostel í Reykjanesbæ eftir að ákveðið var að vísa honum úr landi
Mouhammde Lo strauk af Fit hostel í Reykjanesbæ eftir að ákveðið var að vísa honum úr landi

Boðað hefur verið til mótmæla fyrir utan stjórnarráðið í dag þar sem þess verður krafist að máritaníski strokuþrællinn Mouhammde Lo verði beðinn afsökunar á „...aðför lögreglunnar gegn lögvörðum mannréttindum hans og leyft að dvelja á Íslandi meðan mál hans er tekið fyrir í ráðuneytinu," eins og það er orðað á vef samtakanna No Borders sem berjast fyrir réttindum flóttafólks.

Mouhammde er 22 ára gamall en hann flúði hingað til lands frá Noregi þar sem hann hafði sótt um hæli en ekki fengið svar. Útlendingastofnun sem og íslenska innanríkisráðuneytið tóku á dögunum þá ákvörðun að vísa mannium úr landi og aftur til Noregs. Í tilkynningu sem No Borders sendu þá frá sér kom fram að ef maðurinn fengi ekki hæli í Noregi yrði hann sendur í þrældóm í heimalandi sínu. Er þess því krafist að hann fái hæli hér.

Eftir að ákveðið var að vísa Mohammde úr landi flúði hann af Fit hostel þar sem hann dvaldi og hefur síðan farið huldu höfði.

Búið er að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar og ráðuneytisins.

Mótmælin við stjórnarráðið hefjast klukkan tólf á hádegi.

Á vef No Borders segir:

„Við leggjum áherslu á að brottvísun hans brýtur gegn jafnræðisreglunni (11. gr. ssl.), þar sem flóttamenn hafa að undanförnu fengið að bíða á landinu eftir úrskurði ráðuneytisins eftir að málum þeirra er áfrýjað. Sú hefð komst á í tíð Rögnu Árnadóttur í ráðherrastóli og var mærð sem mikilvægur áfangasigur af mannréttindasamtökum og samráðherrum hennar sem sumir hverjir sitja enn í ríkisstjórn. Nú kveður hins vegar við annan tón og áfangasigurinn er hafður að engu. Því lítum við á tilraun stjórnvalda sem alvarlega aðför að rétti flóttamanna til sanngjarnar málsmeðferðar."
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.