Erlent

Aðgerðaráætlun G20 ríkjanna veldur vonbrigðum

Barnaheill - Save the children urðu fyrir vonbrigðum með aðgerðaráætlun G20 ríkjanna.
Barnaheill - Save the children urðu fyrir vonbrigðum með aðgerðaráætlun G20 ríkjanna. Mynd/AP
Hækkandi matvælaverð ógnar nú lífi fólks um allan heim í því sem hjálparsamtökin Barnaheill - Save the Children segja vera verstu matarneyð heimsins til þessa.

Talsmenn samtakanna segjast því hafa orðið fyrir vonbrigðum með aðgerðaráætlun sem mótuð var á fundi landbúnaðarráðherra G20 ríkjanna í París í síðustu viku þar sem áætlunin taki ekki nógu vel á afar aðkallandi vandamálum.

Sérstaklega urðu samtökin fyrir vonbrigðum með skort á haldbærum ráðum til stuðnings smábændum og kvenbændum auk þess sem þau vildu sjá betri úrræði handa þeim sem búa við næringarskort og þurfa hjálp við að koma lífsviðurværi sínu aftur á réttan kjöl.

Þá þótti talsmönnum samtakanna það vekja athygli að aðgerðaráætlunin tekur mjög lítið til áhrifa loftslagsbreytinga, en þær eru taldar vera meginorsakavaldur þeirra ítrekuðu þurrka sem á aðeins tveimur vikum hafa þvingað tugi þúsunda Austur-Afríkubúa til að yfirgefa heimili sín og leita til yfirfullra flóttamannabúða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×