Erlent

Óttast um sjöþúsund týnda flóttamenn

Óli Tynes skrifar
Hermenn frá Norður-Súdan hafa framið mörg fjöldamorð í suðurhlutanum.
Hermenn frá Norður-Súdan hafa framið mörg fjöldamorð í suðurhlutanum.
Sameinuðu þjóðirnar hafa miklar áhyggjur af sjöþúsund Suður-Súdönum sem voru neyddir til þess að yfirgefa flóttamannabúðir samtakanna á landamærum Norður- og Suður Súdans hinn tuttugasta þessa mánaðar. Talið er að fólkið hafi verið flutt til bæjar í norðurhluta landsins.

 



  Dulbúnir sem starfsmenn Rauða krossins

 

Associated Press fréttastofan segist hafa undir höndum gögn frá Sameinuðu þjóðunum þar sem segi að leyniþjónustumenn dulbúnir sem starfsmenn Rauða hálfmánans hafi skipað fólkinu að yfirgefa flóttamannabúðirnar. Talsmaður Sameinuðu þjóðanna vill ekki staðfesta þetta en viðurkennir að yfirvöld í Norður-Súdan hafi neitað starfsmönnum samtakanna um upplýsingar um fólkið, hvað þá að leyfa starfsmönnum þeirra að heimsækja það.

 



 Annað Srebrenica?

 

Það er ekki nema von að Sameinuðu þjóðirnar hafi áhyggjur af þessu fólki, því sporin hræða. Í Bosníustríðinu á sínum tíma voru um 8000 múslimar reknir frá verndarsvæði samtakanna í grennd við Srebrenica. Þeir voru flestallir myrtir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×