Erlent

Domino's biður rauðhærðan strák afsökunar

Pizzastaðurinn Domino's hefur beðið Ross Wajgtknecht, ellefu ára gamlan pilt frá bænum Somerset í Bretlandi, afsökunar á því að hafa kallað hann rauðhærðan þegar hann pantaði sér pizzu á dögunum.

Ross gaf upp fullt nafn þegar hann pantaði sér pizzu ásamt vinum sínum á dögunum. Þegar hann kom svo að ná í pizzuna kom í ljós að starfsmenn Domino's höfðu ekki skráð nafn hans á kvittunina heldur stóð þar: „Rauðhærði strákurinn".

„Ég var mjög leiður þegar ég sá þetta. Margir skólafélagar mínir stríða mér út af hárlitnum mínum, en ég átti ekki von á því að einhver fullorðinn myndi gera það,“ segir Ross. „Þegar ég var búinn að lesa kvittunina gat ég ekki hætt að hugsa um þetta og fór með pizzakassann heim því ég vildi sýna mömmu hann.“

Og það var það sem hann gerði. Hann fór með kassann heim og sýndi foreldrum sínum hann. „Þetta er andstyggilegt. Þú myndir ekki kalla einhvern feitann eða lýsa honum eftir því hvernig hann væri á litinn. Svo afhverju ætti það að vera í lagi að kalla Ross rauðhærðan?“ segir faðirinn, Andrew Wajgtknecht. „Þetta eru bara fordómar og þeir halda að þeir geti níðst á honum vegna þess að hann er bara ungur strákur.“

Framkvæmdastjóri Domino's í bænum hefur beðið Ross og foreldra hans afsökunar. „Ég mun sjá til þess að þetta gerist ekki aftur,“ segir hann.

Ross sem spilar fótbolta með liði í bænum segir að Paul Scholes, fyrrum leikmaður Manchester United, sé hans uppáhaldsleikmaður. „Margir vinir mínir kalla mig Scholesy en mér er alveg sama um það,“ segir hann.

Þess ber að geta að Ross þurfti ekki að borga fyrir pizzuna sem hann pantaði ásamt vinum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×