Viðskipti innlent

Hægt að taka upp Kanadadollara á þremur mánuðum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Það er hægt að taka upp kanadískan dollar á þremur mánuðum sem gjaldmiðil á Íslandi í stað krónu og upptaka hans mun ekki standa í vegi fyrir aðild að Evrópusambandinu, heldur auðvelda hana ef eitthvað er. Þetta segir lektor í hagfræði.

Kanadískir embættismenn voru á Íslandi fyrr á þessu ári, en þeir funduðu með íslenskum kaupsýslumönnum á veitingahúsi í Reykjavík í byrjun febrúar síðastliðnum. Samkvæmt heimildum fréttastofu voru starfsmenn kanadíska seðlabankans meðal þeirra sem hér voru. Meðal þess sem rætt var á fundinum, sem var óformlegur og ekki með sérstakri vitund kanadíska sendiráðsins, var upptaka Kanadadollars sem gjaldmiðils á Íslandi í stað krónu, en bæði Bank of Canada, sem er seðlabanki kanadíska ríkisins, og fjármálaráðuneyti Kanada eru jákvæð í garð slíkra hugmynda.

Ekki með formlegt umboð

Ekkert slíkt hefur hins vegar verið rætt milli stjórnvalda ríkjanna. Starfsmaður kanadíska sendiráðsins sagði við fréttastofu í dag að það væri óvenjulegt að kanadískir embættismenn væru hér í opinberum erindagjörðum án vitneskju þess, en það er einmitt mergurinn málsins, mennirnir voru hér í óformlegum erindagjörðum. Málið er viðkvæmt, því kanadíska ríkinu er umhugað um óaðfinnanleg diplómatísk samskipti ríkjanna. Og vilja þarlendir embættismenn ekki blanda sér í innanríkismálefni Íslands nema um það komi formleg ósk frá íslenskum stjórnvöldum, en engin viðleitni hefur verið að hálfu íslenskra stjórnvalda að ræða þennan kost.

Kanadísku embættismennirnir voru hér á svipuðum tíma og kaupsýslumenn frá fyrirtækinu Irving Oil sem voru að skoða tækifæri á Íslandi með hugsanleg kaup á íslenskum olíufyrirtækjum í huga.

Best að gera þetta á skömmum tíma


Guðmundur Ólafsson, lektor í hagfræði við Háskóla Íslands, segir upptöku Kanadadollars áhugaverðan kost. Hann segir að upptaka þurfi ekki að taka meira en þrjá mánuði. „Það fer auðvitað eftir því hvað menn vilja gera. Menn bara gefa sér tíma, en ég held að best sé að gera þetta á skömmum tíma. Svona svipað og þegar gjaldmiðilsbreytingin var hjá okkur (íslensk króna innsk.blm)," segir Guðmundur.

Hverjir eru kostirnir við að taka upp kanadískan dollar t.d á móti upptöku evru eða bandarísks dollars? „Það blæs ekki byrlega fyrir evrunni. Lengi vel var rætt um upptöku amerísks dollars, en mér líst ekki á ástandið. Þessar gífurlegu skuldir Bandaríkjamanna verða áreiðanlega uppspretta af sveiflum og verðbólgu," segir Guðmundur. Hann telur að hægt yrði að komast fljótt og örugglega úr gjaldeyrishöftunum með upptöku kanadísks dollars.

„Af mörgum ástæðum er Kanadadollar mjög heppilegur. Hann er mun stöðugri en Bandaríkjadollar og Kanadamenn hafa mikinn áhuga á þessu. Þeir hafa sýnt þessu áhuga í mörg, mörg ár."

Kanadamenn hafa staðið sig betur bankaeftirliti en flest önnur lönd

Jón Steinsson, lektor í hagfræði við Columbia háskóla í New York, deilir skoðunum með Guðmundi. Hann segir að tvíhliða upptaka Kanadadollars í samstarfi við kanadíska seðlabankann sé kostur sem verði að ræða til hlítar, sé hann yfirleitt í boði. „Það er líklega ekki ofsagt að Kanadamenn hafi staðið sig betur í því að hafa eftirlit með bankageiranum en flest önnur lönd. Kanada er eitt fárra landa þar sem bankakerfið slapp algerlega við vandræðin sem hrjáði banka í flestum öðrum ríkjum," segir Jón.

Jón, sem þekkir vel til innan kanadíska seðlabankans, segir að peningamálastjórn hafi einnig verið til fyrirmyndar í Kanada undanfarna áratugi og Seðlabanki Kanada sé í dag á meðal fremstu seðlabanka heims. „Þar að auki er efnahagur Kanada á margan hátt líkur efnahag Íslands. Bæði Ísland og Kanada flytja út mikið af hrávöru. Því hafa sveiflur í hrávöruverðum á heimsmarkaði áhrif á bæði hagkerfin," segir Jón Steinsson. thorbjorn@stod2.is




Tengdar fréttir

Komu til Íslands í vor til að ræða einhliða upptöku Kanadadollars

Bæði fjármálaráðuneyti Kanada og Seðlabanki Kanada eru sögð jákvæð fyrir einhliða upptöku kanadísks dollars á Íslandi. Fréttastofan hefur heimildir fyrir því að kanadískir embættismenn hafi komið til Íslands fyrr á þessu ári og rætt þessar aðgerðir við íslenska kaupsýslumenn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×