Skoðun

Endurtekin ósannindi frá Alþingi

Einar Steingrímsson skrifar
Starfsmannastjóri Alþingis skrifar grein í Fréttablaðið í gær, þar sem hann endurtekur þau ósannindi sem forseti þingsins hefur haft í frammi um Nímenningamálið svokallaða.

 



Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, brást þannig við umfjöllun um málið í fjölmiðlum að senda einum þeirra sem voguðu sér að tala um það tölvupóst, þar sem hún segir m.a. „8. desember 2008 ræðst hópur fólks inn í Alþingishúsið bakdyramegin, beitir þingverði ofbeldi til að komast upp á þingpalla, – yfirbugar þá og slasar starfsfólk þingsins." Í dómi Héraðsdóms 16. febrúar kom glöggt fram að þessar staðhæfingar Ástu voru rangar.

Í umræddum tölvupósti sagði Ásta einnig „Atburðir þessir koma greinilega fram á upptöku í öryggismyndavél." Í ljós kom í réttarhöldunum að starfsmenn þingsins eyddu mestöllum upptökum frá umræddum degi, nema því sem þeim fannst henta að sýna, af því þeir höfðu „fyrst og fremst verið með áhuga á þessum hluta atburðarins" eins og skrifstofustjóri þingsins komst að orði í réttinum.



Samt kom fram í upptökunum að Ásta fór með rangt mál. Þar sem hún vísar í þessar upptökur er erfitt að komast að annarri niðurstöðu en að hún hafi sagt vísvitandi ósatt, þ.e.a.s. að hún hafi logið þessum röngu sökum upp á saklaust fólk.



Starfsmannastjóra Alþingis á auðvitað að vera heimilt að tjá sig í fjölmiðlum. Fari hann hins vegar með ósannindi varðandi mál sem varðar þingið ber forseta þingsins siðferðileg skylda til að leiðrétta það. Þegar starfsmannastjórinn kynnir sig sem slíkan, og endurtekur staðhæfingar sem dómstóll hefur lýst ósannar, ber yfirmanni hans, forseta þingsins, auðvitað bein skylda til að taka í taumana.



Þjóðþing í flestum þeim ríkjum sem við viljum bera okkur saman við væri löngu búið að víkja þingforseta sem uppvís hefði orðið að lygum, ekki síst í svo alvarlegu máli, þar sem forsetinn ber saklaust fólk röngum sökum, og neitar að taka til baka staðhæfingar sínar, hvað þá að biðjast afsökunar.



Það er tími til kominn fyrir Alþingi að láta Ástu taka pokann sinn. Einnig ætti að víkja skrifstofustjóra þingsins úr starfi, þar sem hann átti upptökin að glórulausri ákæru um valdaránstilraun, auk þess að ljúga sjálfur um þátt sinn í málinu, eins og fram hefur komið í tölvupóstum. Alþingi þarf forystu sem segir satt, og ofsækir ekki saklaust fólk með röngum sakargiftum.




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×