Innlent

Dæmdur fyrir fjárdrátt frá Hvítasunnusöfnuðinum

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi og prókúruhafi á reikningum söfnuðarins hefur verið dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir fjárdrátt, þar af eru 9 mánuðir skilorðsbundnir.

Héraðsdómur Reykjaness gerir honum einnig að endurgreiða þær tæpu 18 milljónir sem hann dró sér frá söfnuðinum. Þar af hafði maðurinn millifært á eigin reikninga rúmar 16 milljónir af reikningi Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi en tæpar tvær milljónir af reikningi Hvítasunnukirkjunnar Klettsins.

Fjárdrátturinn átti sér stað frá janúar 2004 til ágúst 2010. Þá var hann einnig dæmdur til að greiða 800 þúsund króna málskostnað safnaðarins.

Maðurinn játaði brot sitt skýlaust og var það virt honum til málsbóta við uppkvaðningu dómsins. Samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.

Af hálfu sakbornings var lagt fram vottorð frá sálfræðingi um að maðurinn hafi verið í viðtölum til að takast á við „margvísleg málefni," meðal annars vegna fjárdráttarins. Í vottorðinu er tekið fram að hann hafi tekist á við málið af einlægni og heilingum.

Þá var einnig lagt fram vottorð fjölskyldu- og hjónaráðgjafa um að maðurinn hafi leitað til hans í október 2001 til að vinna úr „persónulegum málum sem tengjast erfiðu tímabili sem hann hefur verið að ganga í gegnum í kjölfar fjárdráttar", en ákærði hafi ákveðið að hætta hjá ráðgjafanum um síðastliðin jól. Að mati dómsins var ekkert í þessum gögnum sem getur leitt til refsilækkunar fyrir ákærða, umfram játningu hans.

Þá vildi dómari ekki fallast á að tölvuskeyti frá Samhjálp geti haft áhrif á refsingu ákærða, en í því segir að ákærði hafi í eitt sinn í nóvember eða desember 2010 lagt félagasamtökunum lið, án endurgjalds, vegna rafmagnstenginga og einhverra annarra verkefna.




Tengdar fréttir

Fjárdráttur nemur þriðjungi af sóknargjöldum

Fjárdrátturinn í Hvítasunnukirkjunni nemur um þriðjungi af öllum sóknargjöldum sem safnaðarmeðlimir hafa greitt undanfarin sex ár. Fyrrverandi framkvæmdastjóri sem hefur játað fjárdráttinn, segist ekki vita hvort hann geti endurgreitt, en kirkjan krefst bóta. Honum verður fyrirgefið, segir talsmaður Hvítasunnukirkjunnar.

Fjárdrátturinn mikið áfall fyrir Hvítasunnukirkjuna

Fjárdrátturinn í Hvítasunnukirkju er mikið áfall fyrir Hvítasunnukirkjuna, safnaðarmeðlimi og samstarfsmenn framkvæmdastjórans sem grunaður er um fjárdráttinn. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Hvítasunnukirkjan á Íslandi hefur sent frá sér vegna fjárdráttar fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Hvítasunnukirkjunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×