Innlent

Fjárdrátturinn mikið áfall fyrir Hvítasunnukirkjuna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fjárdrátturinn í Hvítasunnukirkju er mikið áfall fyrir Hvítasunnukirkjuna, safnaðarmeðlimi og samstarfsmenn framkvæmdastjórans sem grunaður er um fjárdráttinn. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Hvítasunnukirkjan á Íslandi hefur sent frá sér vegna fjárdráttar fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá Hvítasunnukirkjunni.

Í yfirlýsingunni staðfestir Hvítasunnukirkjan að framkvæmdastjóri Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi hafi viðurkennt að hafa dregið sér fé úr sjóðum hennar. Fjárdrátturinn átti sér stað á sex ára tímabili, frá árinu 2004 til loka ágúst 2010. Yfirferð gagna hefur leitt í ljós að fjárdrátturinn nemur rúmlega 25 milljónum króna.

Í yfirlýsingu Hvítasunnukirkjunnar segir að í ljósi þess að verknaðurinn hafi staðið yfir um nokkurra ára skeið má ætla að ársreikningar á umræddu tímabili hafi verið byggðir á misvísandi gögnum gagngert í því skyni að fela fjárdráttinn. Þannig hafi réttum fjárhagsupplýsingum skipulega verið haldið frá endurskoðanda sem vann ársreikninga samkvæmt bestu vitund.

Framkvæmdastjóranum hefur þegar verið vikið úr starfi. Þá hefur stjórn Hvítasunnukirkjunnar falið Sigurbirni Magnússyni hæstaréttarlögmanni að fara með málið fyrir hönd Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi og kæra málið til lögreglu og setja fram bótakröfu á hendur framkvæmdastjóranum fyrrverandi.

Í yfirlýsingunni segir að stjórn Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi harmi málið og biður safnaðarmeðlimi í öllum hvítasunnukirkjum á Íslandi afsökunar á því að þetta hafi getað gerst. Stjórnin mun nú, í samráði við löggilta endurskoðendur og ráðgjafa, yfirfara alla verkferla sem lúta að bókhaldi og meðferð fjármuna, skipulagi innra starfs og verklagsreglum til þess að tryggja að fremsta megni að viðlíka atburðir endurtaki sig ekki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×