Innlent

Breyting skattþrepa hækkar ekki skatta

Breytingar á skattþrepum hafa ekki mikil áhrif á skattbyrði einstaklinga. Persónuafsláttur verður hækkaður um um það bil 2.200 krónur á mánuði. fréttablaðið/pjetur
Breytingar á skattþrepum hafa ekki mikil áhrif á skattbyrði einstaklinga. Persónuafsláttur verður hækkaður um um það bil 2.200 krónur á mánuði. fréttablaðið/pjetur
Hvaða áhrif hafa breytingar á þrepakerfi tekjuskattsins?

Fjárlagafrumvarpið 2012 gerir ráð fyrir breytingu á þrepakerfi í tekjuskattkerfinu. Hækka á mörkin um 3,5 prósent. Fréttablaðið óskaði skýringa frá fjármálaráðuneytinu um hvaða áhrif þetta hefði á skattbyrði einstaklinga.

Líkt og sést á töflunni hér til hliðar eru skattþrepin þrjú. Lægsta þrepið, tekjur undir 209.400 krónum, ber 37,31 prósents skatt, annað þrepið, tekjur frá 209.401 til 680.550 króna, ber 40,21 prósents skatt og þriðja þrepið, tekjur yfir 680.550 krónum, ber 46,21 prósents skatt. Persónuafsláttur dregst síðan frá þannig reiknuðum skatti, en hann nemur nú 44.205 krónum á mánuði. Í svari fjármálaráðuneytisins kemur fram að endanleg hækkun hafi ekki enn verið ákveðin. Þó er gert ráð fyrir að hún verði 3,5 prósent, líkt og fyrr segir.

Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri skatta- og lögfræðisviðs Deloitte, segir að breytingarnar séu að einhverju leyti í takt við þær vísitölubreytingar sem boðaðar höfðu verið. Skatturinn byrji seinna að hafa áhrif við hækkunina.

„Þetta er í samræmi við það sem átti að vera, þetta átti að fylgja vísitölunni og gerir það að einhverju leyti. Þetta eru þó bara 3,5 prósent, á meðan persónuafslátturinn hækkar um 5,1 prósent.“

Persónuafslátturinn verður eftir hækkunina 46.459 krónur í stað 44.205 króna.

Miðstjórn ASÍ fundaði í gær um skattkerfið og gerði verulegar athugasemdir við lækkun á frádrætti vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Í minnisblaði um fjárlögin segir að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á tekjuskatti til almennings. „Þrepamörk tekjuskatts hækka um 3,5% en ekki í samræmi við launavísitölu líkt og lög gera ráð fyrir.“

Í dæmunum hér til hliðar er horft framhjá hækkun persónuafsláttar, til að einfalda málið og horfa aðeins á þátt þrepamarkanna.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×