Innlent

Meintur gerandi í geðrannsókn

Fórnarlambið var látið þegar lögregla kom á vettvang.
Fórnarlambið var látið þegar lögregla kom á vettvang.
Rúmlega fimmtugur karlmaður sem lést af mannavöldum í maí í Reykjanesbæ var látinn á vettvangi þegar lögregla kom á staðinn, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Áverkar voru á honum.

Rúmlega þrítugur karlmaður sem situr í gæsluvarðhaldi, grunaður um verknaðinn, sætir geðrannsókn. Ýmis sýni sem tekin voru á vettvangi eru til rannsóknar bæði hér og erlendis. Hvorki liggja fyrir niðurstöður geðrannsóknarinnar né rannsóknar á sýnunum. Þá liggja niðurstöður úr krufningu enn ekki fyrir. Eftir þessu er beðið.

Það var 8. maí sem atburðurinn átti sér stað. Lögreglan hefur ekki viljað gefa upplýsingar um málið vegna rannsóknarhagsmuna og verður svo enn um hríð, að sögn Jóhannesar Jenssonar yfirmanns rannsóknardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum. Hann segir rannsókninni miða ágætlega.

Hópur vitna hefur verið yfirheyrður, auk mannsins sem grunaður er um verknaðinn. Rannsókn málsins beinist meðal annars að tildrögum manndrápsins.

Maðurinn sem grunaður er um verknaðinn, Ellert Sævarsson, 31 árs, hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. júní.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×