Lífið

Empire velur verstu myndirnar

Batman & Robin hefur verið valin versta kvikmynd sögunnar af lesendum Empire. Battlefield Earth með John Travolta lenti í öðru sæti.
Batman & Robin hefur verið valin versta kvikmynd sögunnar af lesendum Empire. Battlefield Earth með John Travolta lenti í öðru sæti.
Lesendur kvikmyndatímaritsins Empire hafa valið verstu kvikmyndir Hollywood og á toppnum tróna góðkunningjar sambærilegra lista. Sú kvikmynd sem þykir allra verst er Batman & Robin með George Clooney í hlutverki Leðurblökumannsins og Chris O‘Donnell sem Robin. Einhverjir kunna jafnframt að muna eftir Umu Thurman sem Poison Ivy og Arnold Schwarzenegger í líki Mr. Freeze úr þessari mynd en hún eyðilagði annars ágætan Batman-kvikmyndaflokk sem Tim Burton hafði byrjað á með Michael Keaton í hlutverki Bruce Wayne.

Í öðru sæti yfir verstu kvikmyndirnar er síðan Battlefield Earth með John Travolta en hún er byggð á handriti stofnanda Vísindakirkjunnar. Þessi útnefning ætti því ekki að koma neinum á óvart enda var myndin algjört bull frá upphafi til enda og gagnrýnendur hreinlega rifu hana í sig. Love Guru með Mike Meyers í aðalhlutverki fær síðan bronsið en þrátt fyrir að vera gamanmynd voru ákaflega fáir áhorfendur sem hlógu í bíósölum heimsins.

Í fjórða sæti á lista Empire er síðan Raise the Titanic, alveg hrikalega dýr kvikmynd frá árinu 1980 með Jason Robards og Alec Guinness í aðalhlutverkum. Hún fær 3,9 í einkunn á imdb.com og höfundur bókarinnar sem myndin byggir á var svo vonsvikinn að hann seldi ekki kvikmyndaréttinn að neinni bók sinni næstu tuttugu árin. Í fimmta sætinu situr síðan vitleysismyndin Epic Movie en aðstandendur hennar, Jason Friedberg og Aaron Seltzer, eiga nokkrar á þessum lista, sem von er, enda eru Movie-myndirnar sorp, hvernig sem á það er litið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.