Fótbolti

Robin van Persie með tvö mörk í sigri Hollendinga á Mexíkó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin van Persie fagnar öðru marka sinna í kvöld.
Robin van Persie fagnar öðru marka sinna í kvöld. Mynd/AP
Robin van Persie, leikmaður Arsenal, skoraði bæði mörk Hollendinga í 2-1 sigri á Mexíkó í vináttulandsleik þjóðanna í kvöld en bæði liðin eru undirbúa sig fyrir HM í Suður-Afríku í sumar.

Robin van Persie var fljótur að komast á blað í sínum fyrsta landsleik í sex mánuði því bæði mörkin hans í leiknum komu í fyrri hálfleiknum. Van Persie skoraði fyrra markið af stuttu færi eftir sendingu frá Rafael van der Vaart á 17. mínútu og það síðara á 41. mínútu með laglegu viðstöðulausu skoti eftir fyrirgjöf frá Ibrahim Afellay.

Javier Hernández minnkaði muninn á 74. mínútu leiksins eða tíu mínútum eftir að Robin van Persie var sestur á bekkinn.

„Við spiluðum flottan fótbolta á köflum í kvöld," sagði Robin van Persie sem var að spila sinn fyrsta landsleik síðan að hann meiddist á ökkla á móti Ítölum í nóvember.

„Stoðsendingarnar í mörkunum mínum voru í heimsklassa. Þegar ég fær slíkar sendingar þá er ekki erfitt fyrir mig að skora," sagði Robin van Persie eftir leikinn.

Hollendingar eiga eftir að mæta Gana og Ungverjalandi í æfingaleikjum fyrir HM en fyrsti leikur liðsins í keppninni er á móti Danmörku 14. júní. Mexíkó spilar æfingaleiki við Gambíu og Ítalíu en liðið spilar síðan opnunarleik HM á móti Suður-Afríku 11. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×