Lífið

Scorsese situr á toppnum

Scorsese hefur haft það fyrir sið að notast við sama leikarann í aðalhlutverki í kvikmyndum sínum. Harvey Keitel var fyrstur, svo kom Robert De Niro en samstarf hans og leikstjórans er með því besta sem hefur átt sér stað á hvíta tjaldinu. Leonardo DiCaprio er síðan nýjasti „lærlingur“ leikstjórans og er aldrei betri en þegar Scorsese situr í leikstjórastólnum.
Scorsese hefur haft það fyrir sið að notast við sama leikarann í aðalhlutverki í kvikmyndum sínum. Harvey Keitel var fyrstur, svo kom Robert De Niro en samstarf hans og leikstjórans er með því besta sem hefur átt sér stað á hvíta tjaldinu. Leonardo DiCaprio er síðan nýjasti „lærlingur“ leikstjórans og er aldrei betri en þegar Scorsese situr í leikstjórastólnum.

Martin Scorsese er einstakur leikstjóri. Afrek hans á hvíta tjaldinu verða eflaust seint leikin eftir þótt Óskars­akademían hafi ekki alltaf verið á sama máli.

Nýjasta kvikmynd Martins Scorsese, Shutter Island, verður tekin til sýninga í kvikmyndahúsum borgarinnar um þessa helgi. Hún skartar að sjálfsögðu Leonardo DiCaprio í aðalhlutverkinu en myndin segir frá tveimur rannsóknarlögreglumönnum sem sendir eru á afskekkta eyju. Þar er starfrækt fangelsi fyrir geðsjúka glæpamenn en rannsóknarlögreglumennirnir eiga að rannsaka hvarf hættulegs morðkvendis. Auk DiCaprio eru þeir Mark Ruffalo og Ben Kingsley í helstu hlutverkum.

Kvikmyndir Scorsese eru einstakar; notkun hans á tökuvélum, ljósum og tónlist er með því besta sem gerist í kvikmyndagerð og frásagnarlist hans er einstök. Óþarfi er að renna yfir feril leikstjórans í mögum orðum, hann má nálgast á imdb.com. Þar getur að líta nánast flekklaust líf á bak við tökuvélarnar með aðeins örfáum undantekningum á borð við Kundun og New York, New York. Líf Scorsese utan tökustaðarins hefur reyndar verið skrautlegt; hann hefur verið giftur fimm sinnum, meðal annars leikkonunni Isabellu Rosselini og framleiðandanum Barböru De Finu en þau tvö hafa unnið saman eftir að þau skildu. Scorsese er nú kvæntur Helen Morris og á með henni eitt barn.

Scorsese hefur haft það fyrir sið að vinna kvikmyndir sínar með sama leikaranum í aðalhlutverki og hefur kallað þá „innblástur sinn“. Harvey Keitel var fyrstur til að hljóta slíka nafnbót, lék í fyrstu kvikmyndum leikstjórans, meðal annars Mean Streets, Alice Doesn‘t Live Here Anymore og síðar meir The Last Temptation. Robert De Niro tók síðan við keflinu; samstarf þeirra tveggja er með því besta sem hefur átt sér stað á hvíta tjaldinu. Akademían bandaríska hafði það hins vegar fyrir sið að sniðganga meistaraverk Scorsese og sennilega hafa mestu svik í sögu Óskarsins átt sér stað hinn 25. mars árið 1991 þegar Dansar við Úlfa eftir Kevin Costner var valinn fram yfir Goodfellas. Síðasta mynd De Niro og Scorsese var Casino en það yrðu einhver stærstu tíðindi kvikmyndasögunnar ef þessar tvær goðsagnir tækju þá ákvörðun að endurnýja samstarfið.

En það voru ekkert síður óvænt tíðindi þegar Scorsese fékk Leonardo DiCaprio til að leika aðalhlutverkið í Gangs of New York. DiCaprio var þá óskabarn amerísku þjóðarinnar eftir að hafa leikið Jack Dawson í Titanic og malaði gull í miðasölu með misjöfnum myndum. DiCaprio sýndi hins vegar og sannaði að hann er meira en bara sykursætur strákur og leikarinn er aldrei betri en þegar Scorsese situr í leikstjórastólnum.

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.