Innlent

Sigmundur: Verulegt svigrúm til skuldaleiðréttingar

Formaður Framsóknarflokksins segir bankana hafa svigrúm til verulegrar skuldaleiðréttingar hjá heimilum landsins en yfir helmingur þeirra nái ekki endum saman. Fjármálaráðherra segir stjórnvöld ekki hafa efni á almennri skuldalækkun. Þess í stað eigi að einbeita sér að þeim sem virkilega þurfi á aðstoð að halda.

Staða heimilanna var rædd í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Formaður Framsóknarflokksins sagði úttekt Seðlabankans ekki gefa rétta mynd af ástandinu, þar sem í hana vantaði marga mikilvæga útgjaldaliði. Seðlabankinn segði um 22 próset heimila eiga í verulegum vanda en niðurstaða Hagsmunasamtaka heimilanna væri að yfir helmingur heimila ætti ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum.

Á sama tíma kepptust vogunarsjóðir við að kaupa skuldir gömlu bankanna enda gæfu þær vel af sér. Fjármálaráðherra sagði lánasöfn gömlu bankanna ekki að meðaltali hafa farið til nýju bankanna með 45 prósenta afföllum. Sum lán myndu innheimtast að fullu, önnur minna og sum alls ekki. Það væri hins vegar ekkert launungarmál að mikill fjöldi fjölskyldna ætti við mikinn vanda að stríða.

Stjórnvöld hafi gripið til ýmissra aðgerða fyrir skuldug heimili, stórhækkað vaxtabætur, heimilað útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar og reynt að hlífa þeim tekjulægstu við skattahækkunum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×