Lífið

Frægir bregðast við hamförunum á Haítí

Wyclef Jean flaug til föðurlands síns til að aðstoða við hjálparstarfið. Brad Pitt og Angelina Jolie gáfu milljón dollara til Lækna án landamæra og Oprah Winfrey, Chris Martin og Ben Stiller hafa öll vakið athygli á þeim skelfilegu aðstæðum nú blasa við íbúum Haítí.
Wyclef Jean flaug til föðurlands síns til að aðstoða við hjálparstarfið. Brad Pitt og Angelina Jolie gáfu milljón dollara til Lækna án landamæra og Oprah Winfrey, Chris Martin og Ben Stiller hafa öll vakið athygli á þeim skelfilegu aðstæðum nú blasa við íbúum Haítí.
Oprah Winfrey, Ben Stiller, Brad Pitt, Angelina Jolie og hljómsveitin Coldplay eru á meðal þeirra sem hafa hvatt almenning til að aðstoða þá sem eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans á Haítí.

Leikarahjónin Brad Pitt og Angelina Jolie hafa lagt fram eina milljón dollara til samtakanna Læknar án landamæra vegna hjálparstarfsins á Haítí. „Við gerum okkur grein fyrir því að skjót viðbrögð eru mikilvæg til að hjálpa þeim mikla fjölda fólks sem er heimilislaus og þeim sem þurfa mest á hjálp að halda,“ sagði Pitt í yfirlýsingu sinni. Kollegi hans Ben Stiller skrifaði á Twitter-síðu sína að Haítíbúar þyrftu á hjálp okkar að halda og svipuð skilaboð hafa stjörnur á borð við Paris Hilton, Lindsay Lohan og Adam Lambert sent frá sér.

Söngvarinn Wyclef Jean, sem sló í gegn í hljómsveitinni The Fugees, er frá Haítí. Hann er kominn til föðurlands síns til að leggja sitt af mörkum við hjálparstarfið. „Ég get varla lýst því hversu mikill harmleikur þetta er. Ef fólk gerir ekkert til að hjálpa til á þetta bara eftir að versna,“ sagði hann. „Við verðum að bregðast strax við.“

Oprah Winfrey hóf spjallþátt sinn á miðvikudag með því að hvetja áhorfendur til að láta fé af hendi rakna til Rauða krossins. „Núna verðum við að sameinast og styðja þá sem eiga um sárt að binda,“ sagði hún. Chris Martin, söngvari Coldplay, er á sama máli og hvetur fólk til að styðja góðgerðarsamtökin Oxfam sem hafa um árin stundað hjálparstarf á Haítí. „Ég heimsótti Haítí með Oxfam fyrir nokkrum árum. Þetta er mjög fátækt land og þarna er erfitt að búa. Flest fólkið í höfuðborginni Port-au-Prince býr í hreysum. Jarðskjálftinn sem gekk yfir Haítí hefur breytt borginni í algjört helvíti,“ sagði hann.

freyr@frettabladid.is
f
f


f
f





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.