Innlent

Jarðskjálftamælanet verið byggt upp á tuttugu árum

Þessi skýringarmynd Veðurstofunnar sýnir jarðskjálftavirkni hérlendis vel. Mælakerfið gefur mikilvægar upplýsingar um hreyfingar jarðskorpunnar.
mynd/veðurstofan
Þessi skýringarmynd Veðurstofunnar sýnir jarðskjálftavirkni hérlendis vel. Mælakerfið gefur mikilvægar upplýsingar um hreyfingar jarðskorpunnar. mynd/veðurstofan
Samstarf við erlendar stofnanir tryggir að íslenskir vísindamenn hafa aðgang að öllum bestu gögnum til rannsókna vegna jarðhræringa eins og eldgosanna í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi.

Ingibjörg Jónsdóttir, landfræðingur við jarðvísindadeild Háskóla Íslands, segir að jafnan sé keypt töluvert magn gagna, enda annast jarðvísindadeildin vöktun á fjölmörgum náttúrufyrirbærum á Íslandi. Á það við um skorpu og möttul jarðar, eldstöðvar, jarðhitasvæði, jökla og straumvötn auk rannsókna á setlögum á landi og í sjó, gróðurfari og jarðvegseyðingu.

Jarðvísindastofnun er alþjóðleg rannsóknastofnun á sviði jarðvísinda og í góðum tengslum við norrænar systurstofnanir. Sífellt er unnið að eflingu annarra alþjóðlegra tengsla.

Á tímum eldsumbrota segir Ingibjörg að alþjóðleg tengsl séu sérstaklega mikilvæg. „Þegar eitthvað svona kemur upp á njótum við góðs af tengingum okkar við útlönd og til okkar er miðlað mikið af upplýsingum. Það á ekki síst við um fjarkönnunargögn. Þessi gögn eru fjölbreytt og geta sagt ólíka sögu. Það verður því sífellt að bera saman gögn og reyna að nýta það besta úr þeim öllum."

Auk fjarkönnunargagna, eins og til dæmis ljós-, hita- og ratsjármyndir, eru nýttar upplýsingar frá staðsetningartækjum (GPS-kerfi), þenslu- og jarðskjálftamælum. Þar stendur íslenska vísindasamfélagið mjög vel en eins og þekkt er hefur Veðurstofan komið upp neti jarðskjálftamæla á undanförnum árum.

Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að jarðskjálftamælanet stofnunarinnar hafi verið byggt markvisst upp frá árinu 1989 og GPS-kerfið frá 1999. Einnig er kerfi þenslumæla frá árinu 1979. Alls losa mælarnir hundraðið og Veðurstofan hefur verið í samstarfi við erlendar systurstofnanir og sjálfstæðar rannsóknastofnanir við uppsetningu þeirra.

Steinunn tekur fram að auðvitað mætti bæta kerfin enn. Jarðskjálftamæla mætti að ósekju setja upp á annesjum til að kerfið nái til landsins í heild. „Eins væri gott að fá fleiri þenslumæla því þeir hafa til dæmis gefið okkur upplýsingar sem gerðu það kleift að spá Heklugosi með hálftíma fyrirvara. Við hefðum þegið að hafa slíka mæla við jöklana á Suðurlandi núna."

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×