Innlent

Mikilvægt að Seðlabankinn lækki stýrivexti

Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins.
Vilmundur Jósefsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Samtök atvinnulífsins telja mikilvægt að Seðlabankinn stuðli að efnahagsbata með því að lækka vexti sína verulega við næstu vaxtaákvörðun og brjótist út úr „vaxtasjálfheldunni."

Peningastefnunefnd Seðlabankans fundar í dag og mun tilkynna á morgun um ákvörðun sína. Greiningardeild Íslandsbanka reiknar með stýrivaxtalækkun.

Seðlabanki Íslands hefur nú gott tækifæri til þess að lækka vexti í framhaldi af nýjustu verðbólgumælingu Hagstofu Íslands fyrr í dag, að mati Samtaka atvinnulífsins.

„Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að geta Seðlabankans til að ráða niðurlögum verðbólgu með vaxtahækkunum er afar lítil. Á þenslutímanum frá árinu 2004 - 2008 höfðu vaxtahækkanir fyrst og fremst þau áhrif að hækka gengi krónunnar, laða kvikt erlent skammtímafjármagn inn í landið og skapa enn frekari verðbólgutilefni," segir á vef SA.

Nú sé staðan sú að Seðlabankinn haldi vöxtum háum þrátt fyrir djúpa kreppu til þess að verjast því að erlent fjármagn leiti aftur út úr landinu. Gildir þar litlu þótt gjaldeyrishöft séu við lýði, að mati Samtaka atvinnulífins.

„Seðlabankinn er í sjálfheldu með vextina. Áður voru vextirnir hækkaðir til að hækka gengið. Nú eru vextirnir áfram háir þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi hrunið og enginn eftirspurnarþrýstingur á verðlag. Verðlagshækkanir nú og undanfarna mánuði eru fyrst og fremst kostnaðarhækkanir vegna gengishrunsins og skattahækkana."


Tengdar fréttir

Greining reiknar með stýrivaxtalækkun

Lækkun vísitölu neysluverðs nú eykur líkur á því að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir á morgun. Peningastefnunefnd bankans fundar nú í dag og mun tilkynna á morgun um ákvörðun sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×