Viðskipti innlent

Greining reiknar með stýrivaxtalækkun

Lækkun vísitölu neysluverðs nú eykur líkur á því að stýrivextir Seðlabankans verði lækkaðir á morgun. Peningastefnunefnd bankans fundar nú í dag og mun tilkynna á morgun um ákvörðun sína.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að greiningin reikni með því að nefndin ákveði að lækka vexti bankans lítillega, og þá á þann veg að vextir á viðskiptareikningum innlánsstofnana lækki um 0,25 prósentur í 8,25% en vextir á viku veðlánum (hinir hefðbundnu stýrivextir) um 0,5 prósentur í 9,5%.

„Þetta er breyting frá okkar fyrri spá en fyrir birtingu vísitölu neysluverðs í morgun reiknuðum við með því að peningastefnunefndin myndi halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á morgun," segir í Morgunkorninu.

Ennfremur segir að í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar vegna ákvörðunar hennar 9. desember síðastliðinn kemur fram að haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar. Nú hefur verðbólgan hjaðnað umtalsvert frá síðustu vaxtaákvörðun og gengi krónunnar haldist nokkuð stöðugt. Því virðist sem þau tvö skilyrði sem peningastefnunefndin setur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds vera til staðar.

Þegar peningastefnunefndin gaf út yfirlýsingu sína í desemberbyrjun var verðbólgan 8,6%. Nú er hún 6,6%. Hluti af verðbólgunni er bein afleiðing af hækkun óbeinna skatta sem peningastefnunefndin mun líta framhjá við ákvörðun sína. Ef litið er á verðbólguna samkvæmt fastskattavísitölunni þá hefur verðbólgan þannig mælt farið úr 7,7% í 5,2% frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndarinnar.

„Þessu til viðbótar eru vísbendingar um að framleiðsluslakinn í hagkerfinu fari vaxandi, og er samdráttur landsframleiðslu umtalsverður og atvinnuleysi að aukast enn. Þannig ætti verðbólgan að hjaðna enn á næstunni og reiknum við með því að sú skoðun verði sett fram í nýrri efnahagsspá Seðlabankans sem birt verður á morgun", segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×