Innlent

Krummi tryggir sér sæti í Hörpunni

Blásvört, þjófótt og grimmileg vera hefur tryggt sér sæti fyrst allra í tónlistarhúsinu Hörpunni við hafnarbakkann í Reykjavík. Og er að fjölga sér. Lóa Pind Aldísardóttir freistaði þess í dag að heilsa upp á snemmbúinn tónleikagest.

Það var blikksmiður í Hörpunni sem vakti athygli okkar á gestinum sem hefur tekið sér bólfestu ofarlega í hálfkaraðri tónlistarhöllinni, náungi sem alla jafna er líklegri til að hreiðra um sig í klettagjám, gljúfrum eða úfnu hrauni.

Krumminn mun raunar einhver nýtnasti fugl sem um getur, dæmi eru um að hann geri sér að góðu ryðgaðar gaddavírsrúllur undir eggin. Að auki þykir hann útsjónarsamur og þjófóttur, að sögn fuglafræðings á Náttúrufræðistofnun, náði krummi að smokra splittum úr stillönsum utan á Fjölbraut í Breiðholti fyrir fáum árum, gerði úr þeim laup - og lagði iðnaðarmenn í bráða hættu með þjófnaðinum.

Það er ekki einfalt að komast að hreiðrinu í Hörpunni og sjónvarpsvélin okkar náði ekki að sjá ofan í laupinn - það gat hins vegar Kári Brekason blikksmiður sem tók þessa mynd. Þrjú egg eru í hreiðrinu - en krumminn verpir samkvæmt þjóðsögunum níu nóttum fyrir sumar, sem sagt um miðjan apríl. Þess er því varla langt að bíða eggin klekist út og litlir hrafnsungar fari að tísta í Hörpunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×