Lífið

Fólkið valdi Rebekku

Ein af sigurmyndum Rebekku í keppni samtakanna Artist Wanted.
Ein af sigurmyndum Rebekku í keppni samtakanna Artist Wanted.

„Þetta er rosalega spennandi og ég bjóst ekki við að vinna. Ég var mjög hissa þegar það var hringt í mig,“ segir listamaðurinn Rebekka Guðleifsdóttir.

Rebekka vann á dögunum verðlaun fólksins (e. Peoples Choice Award) í ljósmyndakeppni á vefsíðu samtakanna Artists Wanted. Hún fékk í sinn hlut 1.000 dollara í verðlaunafé og kynningu í samstarfi Gawker Artists, sem er hluti af fjölmiðlaveldinu Gawker Media. Fyrirtækið er einn stærsti bloggmiðill heims og er metið á 300 milljónir dollara. Loks verður haldin veisla henni, og öðrum sigurvegurum, til heiðurs á Manhattan í New York þar sem nokkrar af myndum hennar verða sýndar.

„Ég hafði aldrei heyrt um þessa vefsíðu fyrr en bandarískur vinur minn benti mér á að taka þátt í þessari keppni,“ segir Rebekka. Keppnin er býsna stór, þúsundir taka þátt og leikarinn Steve Buscemi er á meðal dómara. Úrslit í aðalkeppninni ættu að liggja fyrir í byrjun febrúar.

Þema keppninnar var sjálfsmyndir. Sjálfsmyndir Rebekku hafa notið mikilla vinsælda á vefsíðunni Flickr og fjölmiðlar víða um heim hafa fjallað um myndir hennar. Í umsögn dómnefndar Artist Wanted kom fram að myndir Rebekku séu ekkert minna en stórkostlegar og að hver mynd laði að og veki furðu á tíma. Þá segir að í návígi sjáist að uppsetning þeirra sé mjög flókin og að hver mynd krefjist mikilla hæfileika. - afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.