Innlent

Vísað til þjóðarinnar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Blaðamannafundur á Bessastöðum Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði þjóðina þurfa að fá ráðrúm til að meta yfirlýsingu þá sem hann kynnti í gærmorgun, en svaraði engu síður nokkrum spurningum fjölmiðla.
Blaðamannafundur á Bessastöðum Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði þjóðina þurfa að fá ráðrúm til að meta yfirlýsingu þá sem hann kynnti í gærmorgun, en svaraði engu síður nokkrum spurningum fjölmiðla. Fréttablaðið/Stefán
Lögum frá í desember um ríkisábyrgð vegna Ice­­save-samninga við Breta og Hollendinga var vísað til þjóðarinnar með ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, í gærmorgun um að skrifa ekki undir lögin.

Á blaðamannafundi á Bessastöðum þar sem forsetinn kynnti ákvörðun sína vísaði hann til þess að honum hafi borist áskoranir frá um fjórðungi kosningabærra manna í landinu um að vísa lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Það er mun hærra hlutfall en tilgreint hefur verið sem viðmið í yfirlýsingum og tillögum stjórnmálaflokka,“ sagði Ólafur Ragnar. Samkvæmt frumvarpi um breytingu á stjórnarskránni sem var lagt fram á þingi síðastliðinn vetur var kveðið á um að 15 prósent kosningabærra manna gætu knúið fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þar voru þó undanskildir milliríkjasamningar.

Ólafur Ragnar kvað skoðanakannanir jafnframt benda til að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar væri sama sinnis. „Þá sýna yfirlýsingar á Alþingi og áskoranir sem forseta hafa borist frá einstökum þingmönnum að vilji meirihluta alþingismanna er að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram.“



Ragnhildur Helgadóttir
 Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við lagadeild Háskólans í Reykjavík, segir stjórnarskrána í raun ekki gera kröfu um að forsetinn rökstyðji ákvörðun sína, mat á því hvort málum sé skotið til þjóðarinnar liggi í valdi hans. „Það er ekki gerð krafa um annað, hvað þá einhvern ákveðinn fjölda manna,“ segir hún, en kveðst hafa staldrað við orð hans um meirihluta á Alþingi fyrir því að vísa málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar sem þingmenn hafi á þingi verið nýbúnir að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu um málið þá þyki henni hæpið að ætla í rökstuðningi að styðjast við yfirlýsingar þeirra í fjölmiðlum um annað.

Á Bessastöðum í gær kvað Ólafur Ragnar það einlæga von sína að niðurstaða leiddi til varanlegra sátta og farsældar fyrir Íslendinga um leið og hún legði grunn að góðri sambúð við allar þjóðir, en hann var jafnframt spurður út í möguleg áhrif ákvörðunar hans á ríkisstjórnina, sem lagt hafi ríka áherslu á að keyra málið í gegn.

Björg Thorarensen
 „Málskotsrétturinn, eins og hann er tilgreindur í 26. grein stjórnarskrárinnar, felur eingöngu í sér að forseti taki afstöðu til þess hvort þjóðin eigi að meta tiltekin lög eða ekki. Afstaða einstakra ráðherra eða ríkisstjórnar til slíkrar ákvörðunar getur aldrei orðið úrslitaatriði í slíkri niðurstöðu,“ sagði Ólafur Ragnar.

Þá virtist forsetinn ekki hafa áhyggjur af viðbrögðum erlendis. „Bretar og Hollendingar eru meðal elstu lýðræðisþjóða Evrópu og hljóta þannig að bera djúpa virðingu fyrir lýðræðislegum rétti þjóða eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslum,“ sagði hann og bætti einnig við að lögin tækju gildi þrátt fyrir synjun hans og það myndi ekki breytast fyrr en með þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Með þessari ákvörðun hefur ekkert gerst sem ætti að gefa Bretum og Hollendingum tilefni til að bregðast við með neikvæðum hætti.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×