Innlent

Inspired by Iceland slær í gegn

Átakið Inspired by Iceland hefur heldur betur slegið í gegn ef marka má tilkynningu sem iðnaðarráðuneytið birtir á heimasíðu sinni. Eins og hefur komið fram voru Íslendingar hvattir til að senda vinum, fjölskyldu og viðskiptafélögum erlendis myndband sem er ætlað að veita fólki innblástur og hvetja ferðalanga til Íslands.

Í lok dags í gær höfðu verið send að minnsta kosti ein og hálf milljón skilaboða með tölvupósti og af vefsíðunni inspiredbyiceland.com.

Um fimm milljón Twitter skilaboða voru send, en þar vógu þyngst sendingar sem Björk og Yoko Ono áttu heiðurinn af. 870 þúsund manns hafa hlaðið myndböndum niður, þar af 600 þúsund nýja landkynningarmyndbandinu. Þá hefur átakið hefur eignast 17 þúsund vini á Facebook og 125 mikilvægir bloggarar hafa bloggað um málið.

„Aðstandendur átaksins eru að vonum ánægðir með hvernig til tókst og þakka frábærar viðtökur íslensku þjóðarinnar og vonast til þess að fólk haldi áfram að senda þó að þjóðarátaksdeginum sé formlega lokið," segir enn fremur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×